Færsluflokkur: Bloggar

Kýst þú Draumalandið !?!?

 

Ég kom til höfuðborgarinnar í gærkveldi,   ég var svo heppinn,  að dóttir mín frumburðurinn minn, kom norður um páskanna með frumburðinn sinn,  elstu ömmustelpuna mína sem er 8 ára.  Og saman ókum við svo suður í gær,  eða réttara sagt, hún ók mínum bíl, á meðan ég hafði það huggulegt í farþegasætinu.  - Þetta var yndislegt ferðalag, hlaðið góðum og göfugum samræðum og skemmtilegum bollaleggingum.

   M.a. ræddum við komandi kosningar,  og hvað við ættum að kjósa, ég sem er að fara með leikritið "Falið fylgi" til Finnlands ásamt Leikfélagi Akureyrar, sá fram á að ég yrði að skila auðu,  því ég vissi ekki hvað ég ætti að kjósa. - 

 Eða réttara sagt,  hafði ég enga löngun til að kjósa neinn flokk. - Þar sem ég hef ekki séð "skýrar" stefnuyfirlýsingar um þau málefni sem ég tel brýnust í dag. -  Þ.e framtíð lands og þjóðar.

Og þar sem ég verð að kjósa utan kjörfundar þá hef ég haft af þessu miklar áhyggjur.  - Því það er ekki minn stíll að skila auðu. - 

   Þá stakk frumburðurinn upp á að við færum að sjá Draumalandið þegar við kæmum í bæinn,  já,  eftir að keyra alla leið til Reyjavíkur,  var ákveðið að við skyldum skella okkur í bíó klukkan 10 og sjá Draumalandið, svo við mundum ekki missa af henni, eins og svo oft vill verða með mig ef ég dríf mig ekki strax á góðar myndir, þá allt í einu þegar ég man eftir að ég hafi ætlað að sjá þessa mynd, er bara hætt að sýna hana.   

Sem sagt við komuna til höfuðborgarinnar skelltum við okkur beint í bíó kl: 22:00,  á páskadagskvöldi,  til að sjá myndina "DRAUMALANDIÐ".

Ég er heppinn að eiga framkvæmdasama og skemmtilega dóttur eins og hana,  því annars er ég hrædd um,  að ég hefði misst af myndinni, og þar með þurft að skila auðu í komandi kosningum.

Í þess stað lýsi ég eftir skýrri afstöðu allra stjórnmálaflokka til virkjanamála og stóriðjuframkvæmda, í hvaða formi sem er.

Og ég hvet alla Íslendinga nær og fjær að fara og sjá þessa mynd, og taka síðan afstöðu.

Ég hvet fólk til að sjá þessa mynd áður en það fer að kjósa, vegna þess að þetta er mynd sem, fjallar um hvar, hvernig, og hverjir lögðu grunnin að efnahagshruninu. 

Þessvegna hvet ég landa mína til að sjá myndina, áður en þeir fara í kjörklefann.

Þar má t.d. sjá það svart á hvítu, hvernig þáverandi ráðamenn þjóðarinnar stæra sig afþví við forstjóra Alcoa hvernig þeir,  beygðu og sveigðu, fram hjá landslögum.  Og svo hlæja þau saman, yfir að hafa komist upp með að brjóta lög.  Sjón er sögu ríkari.

Og þegar þau aðspurð svara hver þeirra draumur sé:  Þá gat ég ekki varist tárum,  en það voru reiði og fyrirlitningartár sem þá brutust fram.

En í lok myndarinnar var ég farin að gráta af sorg, og ég græt enn í hjarta mínu,  ég syrgi þá náttúrufegurð  sem barnabörn mín eygja ekki möguleika á að upplifa, því landið er farið undir vatn, og dýralífið líka. 

Og ég syrgi þá sjón sem við okkur blasti í lok myndarinnar, skemmdarverk af mannavöldum.

Alveg eins og efnahagshrun þjóðarinnar er skemmdarverk af mannavöldum. 

En um leið og ég vil þakka öllum þeim fjölmörgu aðstandendum sem að gerð myndarinnar komu.  Sérstaklega þeim Andra Snæ Magnasyni og Þorfinni Guðnasyni.  

Og nú veit ég hvaða flokka ég kýs ekki ! 

Ég kýs ekki flokka sem þora ekki að taka afstöðu, af hræðslu við vinsældir. - Enda eru þeir dagar liðnir að fólk kjósi vinsældakosningu, nú kýs fólk vegna málefna, og vilja skýra afstöðu flokkanna til þeirra.  - Og ef flokkarnir þora ekki að taka skýra afstöðu þá er lífi þeirra lokið.

Og ég vil kjósa Stjórnlagaþing.


mbl.is Rólegt í höfuðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þau ætla að klára þetta !!!

Við klárum þetta !  sagði Ragnheiður Elín þingmaður, aftur og aftur, - lauk m.a.s. ræðu sinni á þessum orðum:  Við klárum þetta !    

Hvað hún ætlar að klára er mér ekki alveg ljóst.  -

Nema að hún ætli að klára að leggja landið í rúst,  fái hún og hennar flokkur til þess fylgi.  Það er ekki hægt að skilja þessar upphrópanir hennar öðruvísi. -

 Við klárum þetta !  -  Ætlast konan virkilega til að við leggjum líf okkar,  og niðja okkar, og framtíð Íslands,  í hendur svona fólks, sem endurtekur svona fáránlega innantóma upphrópun, hvað eftir annað úr pontu á eldhúsdagsumræðum á hinu háa Alþingi. 

Við klárum þetta !!! - Innantómur frasi,  sem skellur á áhorfendur, eins og falskur tónn,  þar sem hálf þjóðin situr og veltir fyrir sér ræðu hvers og eins frambjóðanda sem þarna talar, vegur og metur, hvert orð sem þarna fellur. 

Því nú eru aðrir tímar.  Nú er hlustað á hvað þingmenn hafa að segja.  -  Og nú er fylgst með hvað þingmenn eru að gera.  

Og þessvegna hljóma svona innantóm slagorð, eins og bjalla sem vantar í kólfinn. 

Hinsvegar skýrðu svona upphrópanir nauðsyn þess að þjóðin sjálf komi að breytingu á Stjórnarskránni, og nauðsyn þess að koma á Stjórnlagaþingi. 

Með því að kjósa, og kjósa rétt.

AFÞVÍ VIÐ VILJUM EKKI ÞAÐ SEM VAR OG HRUNDI.

 

 

 


mbl.is Vildi hækka skatta á Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jæja Mr. Brown !

 

Svaraðu nú Mr. Brown. - 

Hver eru viðbrögð þín Herra Forsætisráðherra Breta, við skýrslu fjárlaganefndar breska þingsins, þar sem m.a. er viðurkennt að aðgerðir breskra stjórnvalda hafa valdið Íslendingum tjóni, og beiting  hryðjuverkalaga verið harkaleg?

Hverju svararðu nú Mr. Brown.

 

P.s.  Afhverju svaraðir þú ekki símanum þegar Geir hringdi ?!?!?!?!?


mbl.is Vilja viðbrögð frá Brown
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undan hverju brotnaði Sjálfstæðisflokkurinn ?

 Sjálfum sér ?

 Eða brotnaði Sjálfstæðisflokkurinn undan kröfum Jafnaðarmanna ?

Brotnaði Sjálfstæðisflokkurinn af því hann vildi ekki hlusta á fólkið ?

Brotnaði Sjálfstæðisflokkurinn undan kröfu Samfylkingarmanna um sannleikann.

Sannleikann um aðdragandann að efnahagshruni þjóðarinnar, sannleikann um kvótann, sannleikann um sölu á auðlindum þjóðarinnar, og svona mætti lengi telja ?

Brotnaði Sjálfstæðisflokkurinn þegar hann komst að því að stefna hans hafði steytt á skeri.

Nei Flokkurinn brást ekki heldur fólkið, heyrir maður allsstaðar sífrað í hornum.

Flokkurinn er heill,  fólkið er heillum horfið. 

En er einhver flokkur án fólks?  Er það ekki fólk sem fyllir flokkinn?

Er það ekki fólk sem skipar sér í raðir innan flokksins?

Eða eru það apar?  Eða hirðfífl?

 Og ég sem hélt að nú mundi Geir kveðja með stæl,  láta til sín taka, segja sannleikann, nú væri tækifærið að stimpla sig inn í stjórnmálasöguna með eftirminnilegum hætti.

ÉG HÉLT Í ALVÖRU AÐ HANN MUNDI SEGJA SANNLEIKANN.  -  Hann hefur engu að tapa, heldur allt að vinna. -  Til að verða eftirminnilegur í stjórnmálasögunni.  Skapa sér sjálfstæðan stíl ? 

 Úr því þessir kúkalabbar í flokknum hans létu hann og hina í forustunni stuðla að ástandinu sem ríkir í þjóðfélaginu í dag, með aðgerðarleysi, og algjöru ráðleysi.  - Þá hélt ég að hann mundi láta þá hina sömu óráðssíumenn, heyra það strax í upphafi landsfundar, og slá þannig nýjan takt í stjórnmálasöguna. En í staðinn þarf hann að lufsast burt og á áreiðanlega aldrei afturkvæmt í trúnaðarstöðu meir. -

 Einhvernveginn finnst mér þetta ekki sanngjarnt. Geirs vegna. Ég kann svo skratti vel hann.

En Geir hefur enn ekki kjark til að hlusta á fólkið, og svara því , heiðarlega!

Og hann hefur ekki kjark til að biðjast afsökunar !

Heldur tönnglast hann á því,  að þetta sé hinum eða þessum að kenna, sem hann veit að allir vita að er bull.

Hverslags upptaktur er þetta við byrjun á Landsþingi,  þar sem leggja átti spilin á borðið,  og ræða málin af hreinskilni. 

 Eða er þetta kallað "hreinskilni" í Sjálfstæðisflokknum, ömurlegur upptaktur verð ég að segja.

Og er ræða Geirs þá kölluð "uppgjör" hans við flokkinn?

Afhverju ekki að leggja bara Sjálfstæðisflokkinn niður,  fram yfir kosningar,  svo hann fái ekki skell í kosningunum. 

Það væri ráð Geir.


mbl.is Samfylkingin brotnaði undan storminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afhverju ekki að lögleiða .......

 

Afhverju ekki að lögleiða kannabis alveg eins og annað tóbak, að ég taqli nú ekki um áfengi?  Hverslags hræsni er þetta?

Ég sé engan mun á þessum fíkniefnum.

Eina munin sem ég sé,  er,  að sum af þessum fíkniefnum eru lögleg, og því auðveldara að nálgast þau.

En hin eru seld af undirheimunum, og þá blönduð með allskonar eiturefnum sem neytandinn hefur ekki hugmynd um hver eru, og afleiðingarnar þekkjum við. -

Það mætti t.d. selja kannabis í Apóteki sem verkjalyf.

Það eru nú þegar til verksmiðjur ti að framleiða kannabis, um það höfum við lesið í blöðunum undanfarna daga. -

Og það hefur sýnt sig að Íslendingar búa yfir kunnáttu til ræktunar á kannabis. -

Er ekki alltaf verið að tala um sjálbæra atvinnuþróun í sem flestu. - Afhverju ekki þessa.

Ég mæli með þessari atvinnustarfsemi.  - Hún þarf að vera lögleg, og þá nýtur hún viss öryggis, og um leið þarf hún að gangast undir vissar reglur, eins og þeir þurfa að gera sem eru að rækta þessi efni erlendis.

Ég minnist þess að fyrir rúmum þrjátíu árum þegar ég var að æfa leikrit, þar sem fjallað var um mikla streitu og álag, og leikhúsið fékk lyfjafræðing til að flytja okkur fyrirlestur um lyf osfrv.  Þá man ég að lyfjafræðingurinn mælti með því að fólk sem ekki gæti sofið, ætti frakar að fá sér eitt púrtvínstaup eða annað staup fyrir svefn, til að getað slakað á, frekar en að taka svefnlyf eða eitthvað róandi.

Þá var spurt:  En er það ekki varasamt, verður fólk ekki alkóhólistar á því? 

 Þá svaraði lyfjafræðingurinn:    Það er auðveldara að takast á við það en að takast á við misnotkun á lyfjum. Því þeir sem eru veikir fyrir á annað borð eru veikir fyrir öllu sem slævir.

Og ég hef spurt marga þessarar sömu spurningar síðan,  bæði lærða menn og leikna, og svarið er enn það sama.

Hættum því að fela okkur á bakvið vandamálið. - Með því að búa til meira vandamál.  Sem er augljóst að við gerum þegar við lítum upp og horfumst í augu við fíkniefnavandann,  og afleiðingar hans. 

Og svona ein saga í lokin,  ég var um tíma mikið út í Hollandi, og einu sinni sem oftar var ég á á rölti um miðborg Amsterdam, með dóttur minni og barnabarni, ég var orðin heldur betur þreytt í fótunum og langaði að fá mér kaffibolla, áður en við röltum aftur heim á leið. 

    En öll kaffihús voru yfirfull, og fólk beið í röðum eftir borði, þá göngum við framhjá einu af þessum kósý, gamaldags kaffisjoppum með ruggustóla og hægindastóla fyrir utan, osfrv, ég var oft búin að labba þarna framhjá, nema þennan dag sé ég að það eru laus sæti,  svo ég segi:  Heyrðu þarna er laust, förum þangað !  - Nei, mamma þú vilt ekki fara þangað: svarar dóttir mín að bragði - Hva, afhverju ekki ? spyr ég hissa. - Afþví mamma þú vilt ekki fara inn á svona staði. -

 Svo ég horfi á hana í forundran. - Þá ítrekar hún:  Mamma þetta eru svona kaffihús fyrir þá sem nota osfrv.

- Guð minn góður hvað ég skammaðist mín, ég hafði ekki haft grænan grun um þetta, en hafði oft hugsað um það þegar ég var að passa barnabarnið hvað þetta væri kósý staður fyrir fjölskyldufólk.  Og að einhverntíma ætlaði ég að tylla mér þarna niður.

 


mbl.is Kæmi til greina að leyfa kannabislyf á undanþágu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og þar fór það ....

 

   Og þar fór SPRON, það er dapurlegt,  þó manni hafi grunað að þeim tækist að lokum ætlunarverk sitt,  sem þeir sóttu svo stíft, að ná til sín öllu því fé,  sem þeir kölluðu "Fé án hirðis".  

   Ég man hve Pétur Blöndal talaði fjálglega um nauðsyn þess að ná "fé án hirðis" út úr bankanum.

   Og ég man líka að forstjóri SPRON Guðmundur Hauksson var á sama máli, og stefndi að því leynt og ljóst að ná út fé sem annars væri án hirðis, og sameina síðan SPRON og Kaupþig.

    Pétur Blöndal sem stofnaði Kaupþing, átti líka tilkall, að eigin sögn,  til "fé án hirðis" sem lá milli heims og helju í einhverskonar svartholi í SPRON. - Eða svo skildist manni a.m.k.

   Og Guðmundur forstjóri SPRON, og stjórnarformaður í Existu, sem var stærsti hluthafi í Kaupþingi, var fyrrverandi starfsmaður Kaupþings, svo þessvegna vildi hann sameina þessa tvo banka,  aðal röksemd hans og hans fylgisveina fyrir sameiningu, var, að það væri svo dýrt að reka svona lítinn banka sem SPRON var.  

  Og Erlendur forstjóri Exista var stjórnarformaður í SPRON.

  Svona gátu þeir nú leikið sér strákarnir.  

   Enda náðu þeir sínu fram þrátt fyrir harða baráttu andspyrnuhreyfingar sem fylgdu Vilhjálmi Bjarna að málum.

   Og nú er SPRON kominn undir hatt Kaupþings.

   SPRON var minn aðal viðskiptabanki . - Þar vann gott fólk. - Þangað var gott að koma. 

   Hvað geri ég nú?

 


mbl.is SPRON til Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afhverju bankaleynd hjá sumum .....?!?!?

 

     Ég fékk bréf frá Seðlabankanum upp úr áramótum þar sem mér var tilkynnt að í kjölfar "bankahrunsins" man ekki alveg hvernig þetta var orðrétt,-   en allavega var mér tilkynnt að eigur mínar og bankainnistæður yrðu rannsakaðar samkvæmt svo og svonefndum lögum nr: þetta-og hitt osfrv.

  Fyrst hélt ég að þetta væri grín!  En svo reyndist ekki vera. - Held ég!?! -

   Bréfið var undirritað af aðalbankastjóranum þáverandi,  svo ég hugsaði með mér:  Skollinn, pollinn, - ég sem á ekkert inn á banka, nema yfirfullan yfirdrátt, íbúðalán, og svo skuldir.

   Jú, svo átti ég lífeyrissjóð,-   séreignasjóð, sem lagður hafð verið inn í Kaupþing, þegar séreignalífeyrissjóðurin var lagður niður. - 

 Og ég hafði kvartað undan því að "höfuðstóllin" sem var mín séreign,  rýrnaði jafnt og þétt. -  Þrátt fyrir góðærið.  -

  Það fannst mér afar skrítið þar sem mér hafði verið tjáð að "séreign mín" yrði í góðri gæslu og hlyti hæstu vexti. - Svo ég kvartaði.

   Þá var mér sent flísteppi, svona sem dúsu. -  Ég endursendi teppið.

   Og við næstu áramót þegar inneign mín sýndi enn neikvæða niðurstöðu,  og ég bað um skýringu.

  Þá var mér boðið að leika í auglýsingu fyrir Lífeyrissparnað Kaupþings.

  Ég gafst upp, og hugsaði með mér að svona hlyti Davíð að hafa liðið eftir að hafa tekið allt útaf bankabókinni sinni,  en enginn fetaði í fótspor hans, menn höfðu bara skotið að honum fugli, (dulmál yfir að senda einhv. fingurinn.).

   Ég ákvað að gefa mig ekki, en því miður, mínir peningar sætu "pikkfastir" í Kaupþingi þar til ég kæmist á aldur.

   Svo féllu bankarnir hver af öðrum, ég var líka í viðskiptum við Glitni,  en ég skuldaði ekkert þar, og þó féll hann, ekki mér að kenna.

 - Og Landsbankinn, þar var ég líka í viðskiptum frá því ég man eftir mér, hvernig skyldi staðan vera þar?

   Síðast féll Kaupþing og þá var mér allri lokið.  Hvað yrði nú um þær fáu krónur sem ég átti eftir af mínum séreignasjóði,  sem ég sparaði, og lagði til hliðar, svo dætur mínar fengju allavega fyrir útför  minni ef ég félli frá fyrir aldur fram.

   Þegar Kaupþing hafði verið endurreistur,  og skilaskiptastjóranum verið skipt yfir í bankastjóra, og þar sem ég er að mestu sambandslaus hér fyrir norðan, sendi ég e-mail og spurðist fyrir, um séreignasjóðinn minn.

   Það var ekki hægt að segja mér stöðuna núna, en ég fékk að vita hvernig hún var áramótin 07/08,  jafnframt sem mér voru boðnir möguleikar á að setja innistæðu mína sem þeir gátu þó ekki sagt mér hve há væri,  þá buðu þeir mér samt, að leggja lífeyrissjóðinn minn í nýja áhættu, sem gæfi enn meira afsér enn sá fyrri, sem féll. 

   Ég vissi ekki hvort ég átti að gráta eða hlæja.

   Ég skundaði í Kaupþing hér fyrir norðan, hitti þar elskulegan þjónstufulltrúa sem sá um "séreignalífeyrissjóði", honum fannst jafnskrítið og mér hvernig inneign mín hafði rýrnað jafnt og þétt síðustu árin. - Ekki síst vegna þess, að Kaupþing hafði þá reglu áður sem nú,  að ekki mætti nota "séreignasjóð  54ra ára eiganda og eldri til áhættu".  - Þannig höfðu þessir háu herrar ekki bara haft mig og mínar skoðanir að engu,  heldur líka sínar eigin reglur, sem þeir skópu þó sjálfir.  

   Ekki nema vona að Davíð hafi orðið reiður, því auðvitað hlýtur hann að hafa vitað hvernig þeir höguðu sér þarna hjá Kaupþingi.  

   Svo nú bíð ég eftir niðurstöðu rannsóknar Seðlabankans á bankainneign minni, sem þeir gátu þó framkvæmt,  þrátt fyrir mikla "bankaleynd" annarra vafasamra einstaklinga.  -

   Og svo, þegar bankaleyndinni verður "aflétt" eftir kosningar,  vonandi segir Viðskiptaráðherra, þá hlýt ég að fá að vita um mín bankamál, sem nú eru, eða voru rannsökuð af Seðlabankanum.    

   Hey, hey, jibbý jei og jibbý jei !  Kannski á ég pening eftir alltsaman,  vel falinn á Kæman-eyju, eða Tortóla-eyju. - SÉRMERKTUR MÉR.   Jabbídabbídú !

   Í alvöru, út af einhverju er verið að rannsaka mig!


mbl.is Fráleit bankaleynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins tekið á mansali !

 

Ríkisstjórn Íslands samþykkti í dag nýja aðgerðaáætlun  gegn mansali.

Loksins, loksins er eitthvað gott að gerast í þessum málum. 


mbl.is Kaup á vændi verði refsivert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins, loksins !

 

Loksins eygi ég von um að málin verði gerð upp !

Ég eygi von um að glæpamennirnir sem komu landi okkar og þjóð, á þann stað þar sem við erum nú,  verði sóttir til saka.

Nú eygi ég von um,  að þeir verði látnir skila til baka,  þeim þúsundum milljaraða,  sem þeir hafa stolið frá landi og þjóð,  og horfið með af landi brott,  og falið í skattaskjólum hér og hvar um heiminn.

Ég eygi líka,  þá von,  að þeir sem gerðu þessum glæpamönnum það kleift,  að svíkja þannig land sitt,  og þjóð, verði líka sóttir heim, og látnir svara fyrir gjörðir sínar,  og/eða aðgerðarleysi sitt.

Ég vil þakka þeirri ríkisstjórn, sem nú er við völd, fyrir að ráða Evu Joly, til að stjórna þeirri rannsókn sem loksins, loksins fer nú af stað. 

Loksins get ég sest niður og andað léttar.

Því nú eygi ég von,  um framtíð þessa lands. 

Von um,  að landið mitt Ísland, verði byggilegt á ný. 

Að landið mitt Ísland öðlist aftur traust og trú meðal siðmenntaðra þjóða.

En fyrst þurfum við,  að vinna sigra.

Það er ljóst, að við eigum erfiða tíma fyrir höndum, við þurfum að vinna land. 

Við þurfum að vinna land, og við þurfum að gera landið byggilegt. 

Við þurfum að vinna land og yrkja landið upp á nýtt.   

Við þurfum að koma á stjórnlagaþingi.

Og við þurfum að leggja núverandi ríkisstjórn lið, við að vinna þeim málum brautargengi, sem við ætlumst til að þau geri.

Það gerum við helst, með því að kjósa þau, til áframhaldandi góðra verka. 

Á meðan stjórnlagaþing vinnur að gerð nýrrar og betri stjórnarskrár.

Og vinnur að tillögum, um, hvernig við stofnum nýtt lýðveldi.

Svo kjósum við aftur.

Og þá ............


mbl.is Gagnrýnir fámenna rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ellið fyrir mig, en E fyrir Ellen Björns......

 

 Og nú hefur Ellen Björnsdóttir lokið prófkjörsbaráttu sinni hér fyrir norðan.  Nú situr hún sæl og ánægð,  glöð yfir þeim lofsamlegu móttökum og þeim frábæru undirtektum sem framboð hennar fékk hér á Akureyri, og nærsveitum.

   En þó Ellen hafi lokið prófkjörsferðalagi sínu á Akureyri,  þá getur hún ekki bara sest í helgan stein strax, og slakað á. 

   Því nú hefst undirbúningur að ferð frambjóðandans til Finnlands.

   Jamm,  Ellen stefnir á útrás,-  hún mun sem sagt leggja land undir fót,  -  og taka flugið til Vasa í Finnlandi.  

   Já, Ellen Björnsdóttir ætlar í útrás,  enda hefur henni ásamt hennar fríða föruneyti, þeim Benedikt Búa kosningastjóra framboðsins,  vefstjóranum og fyrrum Idol- stjörnunni Írisi Ösp,  og hinum dygga áhanganda prófkjörsins Karli Jónssyni,  verið boðið að stíga á svið á leiklistarhátíð í Vasa,  og  flytja leikverkið "Falið fylgi" eftir eitt af okkar fremsta leikskáld,  Bjarna Jónsson. 

   Það má segja að þessi Finnlandsferð með Leikfélagi Akureyrar muni aldeilis verða góður lokapunktur á sérstaklega góðri dvöl minni hér norðan heiða. 

   Þetta hefur verið snjóasamur og ljúfur vetur, en nú fer senn að vora,  samkvæmt dagatalinu, þó erfitt sé að átta sig á því horfandi á snjóskaflanna hér fyrir utan gluggann.  

   En bráðum kemur betri tíð með blóm í haga, kvað skáldið forðum, og nú erum við vonandi búin að fá almennilega manneskju til að stjórna rannsókn á öllu "sukkinu og svínaríinu í sambandi við efnahagshrunið" .  - Ef Eva Joly tekur það að sér að stjórna rannsókninni, þá verð ég sátt.  Því henni treysti ég. 

   Og svo vil ég fá stjórnlagaþing, eins og Ellen.

   Æ, ég hefði átt að vera búin að taka frá bókstafinn  L  fyrir mig. - Þá gæti ég sagt: 

   Ellið er fyrir Liljur landsins. - E fyrir Ellen

   Svo ætla ég að fara að kjósa prófkörum.

 


mbl.is L-listinn kynnir merki sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband