Kýst þú Draumalandið !?!?

 

Ég kom til höfuðborgarinnar í gærkveldi,   ég var svo heppinn,  að dóttir mín frumburðurinn minn, kom norður um páskanna með frumburðinn sinn,  elstu ömmustelpuna mína sem er 8 ára.  Og saman ókum við svo suður í gær,  eða réttara sagt, hún ók mínum bíl, á meðan ég hafði það huggulegt í farþegasætinu.  - Þetta var yndislegt ferðalag, hlaðið góðum og göfugum samræðum og skemmtilegum bollaleggingum.

   M.a. ræddum við komandi kosningar,  og hvað við ættum að kjósa, ég sem er að fara með leikritið "Falið fylgi" til Finnlands ásamt Leikfélagi Akureyrar, sá fram á að ég yrði að skila auðu,  því ég vissi ekki hvað ég ætti að kjósa. - 

 Eða réttara sagt,  hafði ég enga löngun til að kjósa neinn flokk. - Þar sem ég hef ekki séð "skýrar" stefnuyfirlýsingar um þau málefni sem ég tel brýnust í dag. -  Þ.e framtíð lands og þjóðar.

Og þar sem ég verð að kjósa utan kjörfundar þá hef ég haft af þessu miklar áhyggjur.  - Því það er ekki minn stíll að skila auðu. - 

   Þá stakk frumburðurinn upp á að við færum að sjá Draumalandið þegar við kæmum í bæinn,  já,  eftir að keyra alla leið til Reyjavíkur,  var ákveðið að við skyldum skella okkur í bíó klukkan 10 og sjá Draumalandið, svo við mundum ekki missa af henni, eins og svo oft vill verða með mig ef ég dríf mig ekki strax á góðar myndir, þá allt í einu þegar ég man eftir að ég hafi ætlað að sjá þessa mynd, er bara hætt að sýna hana.   

Sem sagt við komuna til höfuðborgarinnar skelltum við okkur beint í bíó kl: 22:00,  á páskadagskvöldi,  til að sjá myndina "DRAUMALANDIÐ".

Ég er heppinn að eiga framkvæmdasama og skemmtilega dóttur eins og hana,  því annars er ég hrædd um,  að ég hefði misst af myndinni, og þar með þurft að skila auðu í komandi kosningum.

Í þess stað lýsi ég eftir skýrri afstöðu allra stjórnmálaflokka til virkjanamála og stóriðjuframkvæmda, í hvaða formi sem er.

Og ég hvet alla Íslendinga nær og fjær að fara og sjá þessa mynd, og taka síðan afstöðu.

Ég hvet fólk til að sjá þessa mynd áður en það fer að kjósa, vegna þess að þetta er mynd sem, fjallar um hvar, hvernig, og hverjir lögðu grunnin að efnahagshruninu. 

Þessvegna hvet ég landa mína til að sjá myndina, áður en þeir fara í kjörklefann.

Þar má t.d. sjá það svart á hvítu, hvernig þáverandi ráðamenn þjóðarinnar stæra sig afþví við forstjóra Alcoa hvernig þeir,  beygðu og sveigðu, fram hjá landslögum.  Og svo hlæja þau saman, yfir að hafa komist upp með að brjóta lög.  Sjón er sögu ríkari.

Og þegar þau aðspurð svara hver þeirra draumur sé:  Þá gat ég ekki varist tárum,  en það voru reiði og fyrirlitningartár sem þá brutust fram.

En í lok myndarinnar var ég farin að gráta af sorg, og ég græt enn í hjarta mínu,  ég syrgi þá náttúrufegurð  sem barnabörn mín eygja ekki möguleika á að upplifa, því landið er farið undir vatn, og dýralífið líka. 

Og ég syrgi þá sjón sem við okkur blasti í lok myndarinnar, skemmdarverk af mannavöldum.

Alveg eins og efnahagshrun þjóðarinnar er skemmdarverk af mannavöldum. 

En um leið og ég vil þakka öllum þeim fjölmörgu aðstandendum sem að gerð myndarinnar komu.  Sérstaklega þeim Andra Snæ Magnasyni og Þorfinni Guðnasyni.  

Og nú veit ég hvaða flokka ég kýs ekki ! 

Ég kýs ekki flokka sem þora ekki að taka afstöðu, af hræðslu við vinsældir. - Enda eru þeir dagar liðnir að fólk kjósi vinsældakosningu, nú kýs fólk vegna málefna, og vilja skýra afstöðu flokkanna til þeirra.  - Og ef flokkarnir þora ekki að taka skýra afstöðu þá er lífi þeirra lokið.

Og ég vil kjósa Stjórnlagaþing.


mbl.is Rólegt í höfuðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

ég hef ekki séð Draumalandið og veit samt alveg hvað ég ætla að kjósa. Ég er samt ekki að gera lítið úr þeirri staðreynd að það eru margir núna sem ekki vita alveg hvað skal gera í kjörklefanum. Og þá er að spyrja sig að því í einlægni hverskonar þjóðfélag vil ég byggja upp.

Ég vil efna til Stjórnlagaþings og tel það vera eitt af grundvallarmálum dagsins í dag. Við þurfum og viljum stóraukið lýðræði. Tilheyri hópi fólks sem stendur að undirskriftasöfnun undir áskorun til stjórnvalda um að efna til Stjórnlagaþings www.nyttlydveldi.is

Ég vil auka hér jöfnuð i samfélaginu og þar eru margar leiðir færar, gegnum skattakerfið, gegnum kjarasamninga t.d með starfsmati, í gengum lög um jafnrétti kynjanna, kerfi almannatrygginga og fleira og fleira.

Ég vil að þjóðin eignist aftur fiskimiðin og nýtingu þeirra verði stjórnað af fagmennsku, en ekki eftir pöntun hagsmunahópa

Ég vil að Ísland sæki um aðild að ESB til að sjá með eigin augum hvað er þar í boði, þjóðin kjósi svo um samninginn.

Ég vil skipta út krónunni, afnema verðtryggingu og að vextir séu hér lágir og stöðugir.

Ég sé hag okkar best borgið innan ESB og þá ekki síst hinum dreifðu byggðum. Landið er allt norðan 62. breiddargráðu og telst því harðbýlt svæði. Það færir okkur rétt til að styrkja sjálf atvinnu í dreifbýli, til viðbótar við stuðning frá sambandinu. Ég tel að bændum muni vegna betur innan  ESB en utan. Landbúnaður hjá ESB er ekki bara kindur og kýr.

Ég vil að gert verði heilstætt regluverk um meðferð peninga í viðskiptum á Íslandi og þá helst í sem mestu samræmi við reglur í löndunum í kring um okkur.

Ég vil að hægt verði að lækka vöruverð í landinu, sérstaklega á landbúnaðarvörum.

Afstaða mín í umhverfismálum er að verða grænni með árunum, þó ég sé ekki alfarið á móti einu eða neinu í þeim efnum. Varlega skal þó ganga um náttúru landsins.

Læt þennan lista duga í bili en auðvitað eru margir málaflokkar ótaldir.

Ég ætla að kjósa Samfylkinguna.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 13.4.2009 kl. 17:23

2 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þakka þér fyrir frábæran athugasemdapistil Hólmfríður. 

  Ég vil samt hvetja þig til að sjá myndina "Draumalandið" ef þú átt þess nokkurn kost, þetta er mögnuð mynd, sem allir ættu að sjá, hvar í flokki sem þeir standa.

Sérstaklega núna þegar ástandið er eins og það er, og kosningar framundan, þá er spurning um hvernig land viljum við byggja, og hvernig ætlum við að standa að því.  -  

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 13.4.2009 kl. 19:22

3 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæl Lilja,

ég sá Draumalandið um helgina. Fannst það merkileg mynd, alls ekki hlutlaus og klárlega ætluð til að menn taki afstöðu með landinu. Eftir myndina er líka alveg klárt að ég, sem hef verið beggja blands í þessum málum til þessa, ætla hér eftir að taka afstöðu með landinu.

Draumalandið er frábærlega vel gerð mynd, en hún er áróðursmynd það má ekki gleyma því. Sem slík er hún klárlega efni í Óskar eða eitthvað þaðan af betra. Það voru klárlega umdeilanleg atriði í myndinni, atriði þar sem vísvitandi var gert lítið úr einstaklingum, atriðin þannig klippt að þeir litu illa út. Ég gerði mér grein fyrir því á meðan á sýningu stóð ... hafði reyndar dálítið gaman að og grét, brosti og hló á réttum stöðum.  Flott mynd.

Ræða Hólmfríðar hér að ofan gæti allt eins verið eftir mig. Þar sem ég verð ekki á landinu laugardaginn 25. apríl hef ég þegar kosið og sett stafi mína við S, lista Samfylkingarinnar. Draumalandið hefði engu breytt þar um.

Ég er alls ekki sammála öllu því sem felst í stefnuskrá Samfylkingarinnar, alls ekki, en í grundvallaratriðum er ég sammála þeim. Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkur og það sem meira er Samfylkingin er EINI jafnaðarmannaflokkur landsins. Ég vil sem mestan jöfnuð meðal þegna þessa lands, ég vil að allir eigi jöfn tækifæri til framfærslu, náms og starfa. Ég vil að samfélagið styðji dyggilega við þá sem minna mega sín og styðji við bakið á þeim sem hyggja á framkvæmdir og frumkvöðlastarfsemi. Ég vil að á Íslandi sé sósíal demókratískt samfélag líkt og þekkist á Norðurlöndunum, þar sem heilbrigðiskerfið er með því besta sem þekkist og menntakerfið eitt það besta í heimi.

Ég vil að gengið sé um auðlindir lands og þjóðar af virðingu, þær nýttar landi og þjóð til heilla og til framtíðar. Skammtímagróði er mér ekki að skapi. Ég vil aukið og miklu betra siðferði í íslensk atvinnu og viðskiptalíf þar sem hlutir eru uppi á borðinu og einkavinavæðing er ekki forsenda aðstoðar.

Þetta er í grunninn mín framtíðarsýn og þess vegna kaus ég Samfylkinguna.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 13.4.2009 kl. 20:28

4 Smámynd: Aprílrós

Ég veit ekki hvað ég ætla að kjósa. Góða ferð út mín kæra og gangi þér og ykkur vel ;)

Aprílrós, 14.4.2009 kl. 00:48

5 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Maður verður nú bara hlédrægur og hógvær í návist svo orðhagra og fagurra kvenna sem ykkar þriggja, held því karlpungurinn enga ræðu né ríf kjaft, heldur spyr hvort dóttirin sé e.t.v. sú er norðanblóðið rennur í a hálfu?

En auðvitað er myndin áróður á einn eða annan hátt, bókin var það nú og ekkert nema gott um það að segja í sjálfu sér.

Magnús Geir Guðmundsson, 14.4.2009 kl. 00:57

6 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Góða ferð til Finnlands þar sem ég er finnskumælandi öfunda ég þig smá.  Þar sem ég kemst ekki til Finnlands í ár.  Ég ætla að reyna að fara á Draumalandið á morgun.  Þar sem það er eini frídagurinn minn í þessari viku.  Ég ætla að sjálfsögðu að kjósa Borgarahreyfinguna.  Hyvää matkaa =  Góða ferð

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.4.2009 kl. 01:03

7 identicon

Það er ekki margt í boði í þessum kosningum.Eiginlega ekkert.Hvert spillingarmálið og siðleysið kemur upp hraðar en maður nær að fylgjast með með góðu móti.Þegar Ástþór er orðinn besti kostur þá .........humm umhugsunarvert.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 10:43

8 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Algjörlega brilljant pistill elsku LG og svo fallegur líka.

Ég er sammála þér.

Ég vil ekki láta skemma og eyðileggja landið mitt fyrir skjótfenginn gróða nokkurra landráðamanna.

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 14.4.2009 kl. 10:59

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Veit ekki hvort ég legg það á sálina í mér að fara og sjá Draumalandið.  Ég er ennþá svo reið því fólki sem þar stóða að verki og sökkti náttúruperlum.  Held að ég fari alveg á taugum.  En ég er sammála þér í því að við eigum að vernda landið okkar.  Það á ekki að horfa bara á álver og stóriðju, það er svo margt annað sem skilar miklu meiri árangri en það fyrir utan að vernda landið okkar.  Og ég verð að segja það ég lít á fólk sem hvetur til inngöngu í ESB sem landráðafólk.  Það vill ofurselja okkur erlendum auðhringjum sem geta ekki beðið eftir að koma krumlunum yfir auðlindir þjóðarinnar.  Við eigum nóg af öllu, við þurfum bara að koma okkur upp úr hjólfarinu og vinna að því að nýta þær náttúruauðlindir sem við eigum á sjálfbæran hátt.  Hver á ómengaðra kjöt? betri fisk, ferskara vatn, heitara vatn, fallegri náttúru eða kraftmeira fólk en við?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.4.2009 kl. 12:01

10 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

aldeilis  frábær lesning Lilja og ég ætla ekki að láta þessa mynd fara fram hjá mér

Hólmdís Hjartardóttir, 15.4.2009 kl. 13:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband