STARFSHÓPUR KANNAR HAGKVÆMNI - METRÓ - !

 Nú hafa verkfræðingar við Háskóla Íslands myndað starfshóp til að kanna hagkvæmni neðanjarðarlestar á höfuðborgarsvæðinu, og kanna aðstæður fyrir neðanjarðarlestarkerfi "metró", á höfuðborgarsvæðinu. Hópurinn mun kanna hagkvæmni "metró - kerfis".

Hópurinn mun kanna hagkvæmni hugmynda Björns Kristinssonar verkfræðings á neðanjarðarlestarkerfi.  En hann hefur lagt fram hugmyndir að neðanjarðarlestarkerfi á höfuðborgarsvæðinu eins og ég hef áður greint ítarlega frá og læt líka fylgja hér fyrir neðan.

Og nú hefur það merkilega gerst, að búið er að stofna starfshóp, innan verkfræðideildar Háskóla Íslands, sem á að kanna aðstæður á Stór - Reykjavíkursvæðinu fyrir Metró - kerfi.

Það sem hópurinn mun skoða er m.a:  Hagkvæmni Metró - kerfis, staðsetningu lestarstöðva, tengikerfi við lestarnar, og tæknilega valkosti.

Þá munu þeir líka skoða: Æskilega opinbera stefnumótun, og stefnumörkun.

Þá mun hópurinn leita fanga utan hópsins eftir því sem efni standa til.

Á heimasíðu Björns kemur fram að forkönnun neðanjarðarlestarkerfis sé skref í áttina að bættari umferðarsamgöngum á höfuðborgarsvæðinu.   Og vonast menn til að forkönnun leiði til nákvæmari áætlanagerðar, sem dugar til ákvarðanatöku til framtíðar.  

NEÐANJARÐARLEST TIL HÖFUÐS UMFERÐARVANDANUM Á HÖFUÐBORGARSVÆÐINU. -  ER  FRAMTÍÐARLAUSN, og eina raunhæfa lausnin, sem ég sé, að hægt sé að, tefla fram til höfuðs, þeim vanda sem við er að glíma. 

   Og í grein, í DV. frá því 18. mars sl. er mjög athyglisvert viðtal, við Björn Kristinsson verkfræðing, sem lagt hefur fram tillögur til lausnar á umferðarvanda Reykjavíkur með neðanjarðarlest. 

     Björn segir m.a. í viðtalinu við Baldur Guðmundsson blaðamann á DV að:  "Gróflega áætlað, gæti hann trúað, að neðanjarðarlestarkerfi, gæti kostað um 40 milljarða króna.  Það er auðvitað töluverð upphæð, en hafa verður í huga, að hún gæti, leyst umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins."  Og verður því fé þessvegna, betur varið í "metró-kerfi", en aðrar þær leiðir, sem farnar hafa verið undanfarin ár.  -   Segja má að,  Mislæg gatnamót,  Sundabraut og niðurgröftur gatna af ýmsu tagi, kosta, nálægt 40 milljörðum króna,  en "þjóna bara bílaumferðinni". 

   Í samanburði við þetta kostar "metró"  um þrjá milljarðakróna, á hvern kílómetra, og lestarstöð, um einn milljarð króna.   Ætla mætti, að  Metró  til almenningssamgangna, kosti ámóta upphæð, en minnki um leið, þörf á bílamannvirkjum, og akstri, og spari bíleigendum, kostnað, vegna síhækkandi olíuverðs á heimsmarkaði. 

   FÍB reiknaði út, að árlegur kostnaður, við rekstur einkabíls, er á bilinu, ein til ein og hálf milljón.  Ef við miðum við, að á höfuðborgarsvæðinu, séu um hundrað þúsund bílar, þá nemur, árlegur kostnaður, bifreiðaeigenda á suðvesturhorninu um, 100 til 150 milljörðum króna.   Ef tilkoma "Metró-kerfis" yrði til að fækka bílum, þá myndi háar upphæðir sparast. 

   Strætó er tímaskekkja, eins og strætó er rekinn í dag, tímaskekkja, sem þarfnast, verulegrar endurskipulagningar.  Ferðir eru óþolandi strjálar, ferðatími langur,  leiðakerfi oft óhentugt, og, "biðskýli" skýla engu.  Enda notar fólk ógjarnan strætó. 

   Lestir ofanjarðar, segir Björn,  ekki, góðan kost.   Sá kostur, er ekki betri en, vagnarnir sem nú eru í notkun.  Teinar yrðu settir á götur í, almennri innanbæjarumferð í Reykjavík, þær hafa sömu galla, og strætó, og eru líka hægfara.  Til glöggvunar er meðalhraði ofanjarðarlesta í Stuttgart í Þýskalandi 26. kílómetrar á klukkustund.    Eini kosturinn við léttlestir er sá, að þær má knýja, með ekta sunnlensku rafmagni. segir Björn.

     Með neðanjarðarlest myndi ferðatími höfuðborgarbúa, í mörgum tilfellum, styttast verulega.   Metró-lest er varin fyrir umhverfinu, og mætir engri annari umferð. 

   Miðað við, að þrjár til fjórar stöðvar, yrðu, á leiðinni frá Mosfellsbæ, að Lækjartorgi,  gæti Björn trúað,  að lestin yrði um 10 mínútur á leiðinni.  Hún yrði um eina og hálfa mínútu á milli stöðva, auk þess, sem hún mundi stoppa um tvær mínútur, á hverjum stað.

     Björn segir ekki nauðsynegt, að grafa göng, alla leiðina til Hafnarfjarðar, eða upp í Mosfellsbæ.  Sú útfærsla sem hann hefur í huga, er þannig, að á sumum stöðum, mætti grafa örlitla rás, ofan frá, og setja svo þak yfir, til að loka lestarnar frá umhverfinu.   

  Hann segir líka ljóst, að hart verði tekist á, um legu metrókerfisins,  og staðsetningu stoppistöðvanna, ef til þess kæmi, að framkvæmdin yrði ákveðin.   Það vilja allir búa nálægt "metró" og því, hefur hann forðast, að nefna hugmyndir, um staðsetningar, á stoppistöðvum, og nákvæma legu kerfisins. 

   Þá ákvörðun, verða, stjórnmálamenn að taka, en til þessa, hafa þeir verið alltof hræddir, við að taka upp hugmyndir, af þessum toga.  Það er alveg ljóst, að Þetta mundi nýtast fjölmennum vinnustöðum, á borð við fyrirhugað, hátæknisjúkrahús við Hringbraut, ákaflega vel.   Þeir sem hafa gagnrýnt staðsetningu sjúkrahússins, með tilliti til umferðarþunga, ættu að sjá, að "metró" gæti, leyst þann vanda, og dregið verulega úr bílaumferð, segir Björn.

     Í tengslum við "metró-kerfið," vill Björn, að teknar verði í gagnið, svokallaðar "skutlur", - það eru litlir og liprir áætlunarbílar, sem keyra um hverfin, og gegna því hlutverki, að ferja þá, sem búa fjarri stoppistöðvum, metrólestarinnar.  Þær leiðir yrðu stuttar, og stutt, á milli ferða.  Og dæmi um, leiðakerfi, slíkrar skutlu má sjá á korti, hvernig hann kortleggur Kópavog sem dæmi og Baldur blaðamaður DV birtir mynd af því með viðtalinu í DV.  Einnig er hægt að sjá nokkrar hugmyndir Björns af neðanjarðarlestarkerfum og skutlum á þessari slóð með því að ýta á: hér. - http://brunnur.rt.is/bk/

     Björn kallar á nýja hugsun, í samgöngulausnum.  Með metró, er skapaður, alveg nýr valkostur.  Eða eins og hann spyr í DV.:    Er það eðlileg stjórnsýsla, og pólitík, að verja tugum milljarða,  auk landrýmis, í mislæg gatnamót, niðurgrafnar götur, og bílajarðgöng: innanbæjar og á leiðinni inn og útúr borginni?

 - Ekki greiða bíleigendur sérstaklega fyrir þessi mannvirki.   METRÓ dregur úr þörf, fyrir þessi útgjöld, en skapar í staðinn, góðan og greiðan, ferðamáta, þannig að, innanbæjarakstur minnkar, lífsgæði batna,  og slysum fækkar.: segir Björn og skorar á samgönguráðherra, þingmenn og borgarstjórn að skoða þessa lausn gaumgæfilega.  

     Og ég tek heilshugar undir með Birni og skora á samgönguráðherra,  þingmenn, og borgarstjórn að skoða þessa hugmynd að lausn.   Og ég hvet alla borgarbúa, og íbúa höfuðborgarsvæðisins og landsins alls, að skoða þessi mál, vel og vandlega.   Og leggja fram hugmyndir sínar, um staðsetningu, lestarstöðva Metró-lestarkerfis á Höfuðborgarsvæðinu, með því, að send tölvupóst á - metro@dv.is -  Miðað er við að metrólest stoppi á nokkrum stöðum á leiðinni Lækjartorg - Hafnarfjörður annarsvegar,   og á leiðinni frá Lækjartorgi að Mosfellsbæ hinsvegar. - Gott er að hafa í huga, að gróflega áætlað, kostar ein lestarstöð, um einn milljarð króna, auk þess, sem hún tefur ferð, um tvær mínútur. - Nefnið póstnúmer hverrar lestarstöðvar og þekkt kennileiti í nágrenni stöðvarinnar.  

  Björn mun að samkeppni lokinni taka hugmyndirnar saman og afhenda ráðherra þær.

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta er spennandi hugmynd sem þarf að skoða vel og hugsa svolítið langt fram í tímann ekki bara til 2025 það er bara stutt.  Kær kveðja til þín elskuleg og takk fyrir falleg skrif til mín 

Ásdís Sigurðardóttir, 25.3.2008 kl. 23:29

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir þennan fróðlega pistil.  Vil gjarnan kynna mér málið þar sem ég er mikill andstæðingur einkabílafársins sem ætlar allt lifandi að drepa og ég er búin að gefast upp á Strætó þar sem þeir hafa ekki fyrir að samræma ferðir hans að þörfum þeirra sem nota vagninn.  Er sko búin að reyna mig bláa í að nota vagnana, get ég sagt þér.

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 25.3.2008 kl. 23:58

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Veistu Lilja mín að það er hreinlega með ólíkindum að það skuli ekki nú þegar vera metro í Reykjavík, þar sem við íslendingar eltum uppi allt erlendis frá. 'Eg var í Svíþjóð 1962 og þá var einmitt verið að grafa fyrir metró í Stokkhólmi, það var að sögn þá erfitt, þar sem tæknin var ekki eins góð.  Man þetta ekki alveg út í hörgul reyndar, en það voru umræður um þetta.  Nú er búið að leggja metró frá Kastrup til Köben og allir þvílíkt ánægðir, og ég þekki líka metrókerfið í Vín mjög vel, það er frábært og mikið notað kerfi, þar sem hægt er að komast neðanjarðar um alla Vínarborg fram og til baka mjög auðveldlega, og svo sannarleg mikið notað.  Af hverju ekki í Reykjavík.  En ekki blanda því saman við Keflavík og flugvöllinn, þetta eru tvö ólík mál. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.3.2008 kl. 02:29

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þetta er skemmtileg hugmynd hjá Birni. Við höfum verið samstarfsmenn í áratugi, en hann er stofnandi verkfræðistofunnar RT-Rafagnatækni.

Ég held að greinina sé að finna hér sem pdf skjal, ef einhver skyldi vilja lesa hana.

Ágúst H Bjarnason, 26.3.2008 kl. 07:31

5 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Góð grein hjá þér Lilja að vanda. Hér nota ég Metro óspart og þvílík þægindi að komast frá A-Ö eins og fuglinn fljúgandi.  Vonandi stoppar ekki þessi umræða þarna heima hjá ykkur   eins og svo margt annað sem stungið er undir stól.

Ía Jóhannsdóttir, 26.3.2008 kl. 10:28

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mikið væri gaman ef þetta yrði að veruleika. Hann Kjartan Pétur hefur lagt heilmikið til málanna um alls konar mögulegar lestarsamgöngur á blogginu sínu. Það þarf að fletta svolítið aftur í tímann til að finna færslurnar og myndirnar, en fyrir áhugafólk er það vel þess virði.

Lára Hanna Einarsdóttir, 26.3.2008 kl. 10:31

7 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Svona til að fleiri sjónamið fái að njóta sín, þá hef ég verið að blogga töluvert áður um þá hugmynd að setja upp jarðlestakerfi fyrir Reykjavík og Kópavog :)

Hér má sjá hugmynd að neðanjarðarlestarkerfi eða metró sem komið var með fyrir nokkrum mánuðum síðan hér á blogginu.

Hugmynd að 21 Km neðanjarðarlestarkerfi í Reykjavík (smellið á mynd til að sjá fleiri myndir)

Hugmyndin gengur út á að tengja saman 14 staði með 21 Km neðanjarðarlestarkerfi sem liggja myndi um Reykjavík og Kópavog.

Nánari umfjöllun um málið má lesa nánar hér:

TEIKNINGAR AF NEÐANJARÐARLESTARKERFI FYRIR REYKJAVÍKURBORG OG KÓPAVOG

http://photo.blog.is/blog/photo/entry/474061/

NEYÐARKALL FRÁ KÓPAVOGI VEGNA SAMGÖNGUMÁLA EÐA OFNEYSLU Á BAKKELSI!

http://photo.blog.is/blog/photo/entry/458910/

MIKIÐ VAR AÐ BELJAN BAR Í FJÓSINU HJÁ VALDIMAR

http://photo.blog.is/blog/photo/entry/450120/

HUGMYND FYRIR NÝJAN SKIPULAGSSÉRFRÆÐING :)

http://photo.blog.is/blog/photo/entry/438283/

LÉTTLEST AÐ KOMA TIL REYKJAVÍKUR - TIL HAMINGJU :)

http://photo.blog.is/blog/photo/entry/420055/

Hér er aðeins minni lúxus. Eitthvað sem hentað gæti fleirrum. Ný hugmynd!

http://photo.blog.is/blog/photo/entry/339910/

Kjartan Pétur Sigurðsson, 26.3.2008 kl. 11:04

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gaman að þessari mynd.  Ég held líka að það væri miklu auðveldara fyrir aðkomufólk að nota sér neðanjarðarlest en strætóa.  Alla vega mjög lítið mál þar sem ég hef verið. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.3.2008 kl. 11:37

9 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Kjatan P. Sig. klikkar aldrei

Ía Jóhannsdóttir, 26.3.2008 kl. 15:14

10 identicon

Takk fyrir þessa fróðlegu lesningu. Ég hef búið utan höfuðborgarsvæðis síðan 1989 og séð gríðarlegar breytingar til hins verra á samgöngumálum í höfuðborginni síðan ég flutti, og það versnar stöðugt. Mér finnst það svo rakið dæmi að leysa þennan vanda með jarðgangalestarkerfi. Skrýtið hvað margir sem ég hef heyrt tjá sig um samgönguvandann virðast ekki mega heyra á þetta minnst.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 15:57

11 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Ásdís, Jenný, Ásthildur, Ía, Lára Hanna, og Ágúst.  Takk fyrir góð og skemmtileg viðbrögð, við spennandi verkefni, sem það er að koma svona framkvæmd á koppin. 

Ágúst:  Takk fyrir þetta. Já, þetta er sko frábær hugmynd hjá honum Birni.  Ég er líka með slóð á heimasíðu Björns, í pistlinum mínum.  

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 26.3.2008 kl. 16:01

12 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Kjartan Pétur:  Þakka þér kærlega fyrir þitt innlegg í þessa umræðu.  Ég hlakka til að leggjast yfir tillögurnar, í góðu tómi. -  Núna fer fyrst, að verða gaman. Takk enn og aftur.

Ía og Ásthildur:  Nei, Kjartan klikkar sko ekki. Magnað alveg, að skoða, það sem hann hefur fram að færa.

Annó:  Nú verður vonandi breyting á,  það er eðlilegt að fólk sé hrætt við eitthvað sem það ekki þekkir, eða aldrei hefur verið kynnt fyrir þeim, sem mögulegan kost hér á landi.  -

   Það hefur líka skort á, að stjórnvöld, og borgarráðsmenn upplýsi fólk, um, möguleika neðanjarðarlestarkerfis, kosti þess og galla.  Á jákvæðum nótum.  

  Þeir þurfa að, þora, að hleypa umræðunni, út í samfélagið, og leita þannig áhuga og upplýsinga á sem flestum stöðum, sjáið bara þessar hugmyndir sem eru komnar á blað hér í dag. Ótrúlegt alveg. Segið svo að bloggið hafi ekki áhrif.  

     Svo hafa kannski sumir, fyrirfram, verið búnir að afneita, þessum möguleika, vegna hræðslu við nýjungar,  eins og margir gerðu í byrjun umræðunnar um Hvalfjarðargöngin á sínum tíma.  Það var ekki fyrr en "öll þjóðin"  var farin að  taka þátt í umræðunni, að umræðan þróaðist,  í þá átt, að skriður komst á málið, og framkvæmdin við Hvalfjarðargöng hófst.  Og hver sér eftir þeirri lausn?

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 26.3.2008 kl. 16:31

13 identicon

Ingunn Valgerður Henriksen (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 18:52

14 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Þurfa menn ekki að sníða sér föt eftir vexti? Mér finnst það fín hugmynd að bora fyrir Metro undir Reykjavík, það þurfa bara að vera til peningar á heimilinu.

Ég er af þessum gamla skóla (kannski eitthvað svona dóttir-fullorðinna-foreldra-sindróm) sem spyr sig hvort maður eigi fyrir því ef mann langar í eitthvað.

Og eins og foreldrar okkar bentu svo réttilega á: Það er ekki sama að vilja og fá. Ég held kannski að metró lestarkerfið þurfi að vera á "mikið væri gaman ef ég hefði efni á"-listanum enn um sinn.

PS -þú áttir mömmu sem hét Inga?

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 26.3.2008 kl. 23:48

15 Smámynd: www.zordis.com

Ótrúlega spennandi!  Ég er reyndar svo lítið eigingjörn á útsýni og líður ekki vel svona neðanjarðar en vissulega er þetta farkostur sem íslendingar ættu að hugleiða!  Skemmtilegar pælingar og afhverju ekki á Islandi sem er framarlega í allt og öllu!

Gular eftirpáskakveðjur til þín kæra kona!

www.zordis.com, 26.3.2008 kl. 23:55

16 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Inga:  Takk fyrir að senda kort yfir eina af tillögum Björns um hvernig metró og  skutlur, geta unnið saman í Kópavogi.

 Helga Guðrún:  Alveg sammála, við þurfum nefnilega, að sníða okkur stakk eftir vexti, þessvegna, eru þessar tilllögur, lagðar fram, til skoðunar og samanburðar við aðrar hugmyndir um samgöngumannvirki,  og götumannvirki, svifryksmengun, umhverfismengun og sjónmengun. 

  Ef þú lest pisilinn minn um hugmyndir Björns um lausn á þeim umferðarvanda sem við búum við nú þegar,  og þær tillögur sem, liggja fyrir um úrbætur, og berð saman, kostnaðinn, sem báðar tillögurnar kosta,  við, hvort dæmið um sig, og skoðar hvort dæmið færir þér lausn á vandanum öllum.  Þá væri gaman að heyra frá þér, um, hvort væri skynsamlegra, að ráðast í "metró" og skutlur og leysa þannig öll málin á einu bretti, eða fara í jafn mikinn kostnað og leysa bara bílagöngin. Æ, lestu pistilinn minn um hugmyndir Björns, þá áttarðu þig á, um hvað hann er að tala.   Jú, móðir mín hét Ingunn, afhverju spyrðu að því?

Zordis:  Já, þetta er ótrúlega spennandi, eins og Björn leggur til þarf ekki allt að liggja neðanjarðar, sem dæmi segir hann, að það sé líka hægt að gera rás ofaní jörðina og setja svo þak yfir og loka þannig fyrir.   Sömuleiðis elsku Zordis,  eftirpáskagularkveðjur til þín. 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 27.3.2008 kl. 00:56

17 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frábært framtak hjá þér Lilja mín, ég sé fyrir mér að þetta vekji menn til umhugsunar allavega.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.3.2008 kl. 01:14

18 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þakka þér fyrir Ásthildur, það vona ég, að þetta veki fólk til umhugsunar.  Mér skildist af fréttum að þeir hafi samþykkt það einróma í borgarráði í gær, að taka lestarmál fyrir, á næsta borgarráðsfundi.  

 Ég finn á fólki að því finnst þetta spennandi og vel þess virði að þetta sé skoðað.  Og það hljóta borgarráðsmenn að hafa fundið líka. - Því það berast inn tillögur bæði hér í athugasemd frá Kjartani Pétri, og víðar. 

   Við verðum líka að hugsa til þess, að ef að það fer, sem horfir, þá hefur barnafólk, hjúkrunarfólk, kennarar og annað launafólk, ekki efni á að reka bíl, svo það dugir ekki að eyða bara í götumannvirki.  Það þarf líka að leysa, samgöngumálin í víðara samhengi, og þar koma Metró og Skutlur, hagstæðast út, kostnaðarlega fyrir borgina og bæina í kring. Og líka fyrir okkur íbúana.  Og þá leysast fleiri mál, s.s. umhverfismál, mengunarmál, orkusparnaður, og meira landrými skapast, til að byggja á sem annars færu undir götumannvirki eins og mislæg gatnamót.  Svona er hægt að halda áfram lengi.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 28.3.2008 kl. 23:40

19 Smámynd: Halldór Jónsson

Sæl Lilja Guðrún

kannske er skoðanamunurinn um borgarlíf heimspekilegur. Þetta er deila um það, hvort þú lítur á borgarlífið með bandarískum eða evrópskum hætti.

Ég held að við Íslendingar séum mun bandarískari í hugsun en við gerum okkur grein fyrir. Við viljum ekki þröngar borgir og þröngar götur. Við viljum "urban sprawl" úthverfi þar sem fólk býr í notalegum hverfum laust við drykkjulæti og ónæði evrópskra miðborga, sbr. Kvosina í Reykjavík. Úr þessum hverfum keyrum við á gljáfægðum einkabílnum í átt að vinnustaðnum, skóla eða þess háttar. Ef það er umferðarpróblem skiptum við um vinnu og förum þangað sem hægt er að komast að . Við flytjum starfsemina og verzlunina þangað sem við komumst á bílnum að þessu.

Ég vildi að þú hefðir verið með mér á Boston Logan í gærkvöldi. Þar var þoka niður í miðjar hlíðar háhýsanna. Útum mitt kýrauga sá ég þotu lenda eða taka af eða keyra framhjá á ca. 10 sekúndna fresti. Ég sá bara lítið brot af vellinum. Þarna er ekkert pláss fyrir einhverjar kennsluvélar eða einkaflugvélar. Þetta er sjálft efnahagslíf Bandaríkjanna að störfum. Maður skynjaði aflið í þessu öllu.

Þess torskildara verður mér þessi Kvosarspekúlasjón um íbúðarbyggð í stað athafnalífs. Kortið hans Kjartans umlykur svæði sem engin teljandi framleiðslustarfsemi er í  nema spítalar og svo íbúðarhverfi, -svefnstaðir fólks, Alþingi og Stjórnarráð, þangað sem fáir eiga erindi í. Og svo búlluhverfi spillingar og sukks.

Mitt í þessu er auðvitað flugvöllurinn góði, sem er ein af meginundirstöðum  atvinnulífs landsmanna. Ég get alveg séð fyrir mér að einkaflug og kennsluflug eigi að fara þaðan en innanlands-og utanlandsflug eigi þaðan að eflast sem mest. Þannig og aðeins þannig verður Reykjavík rík og höfuðborg.

Ekki er ég á móti samgöngum í lestarkerfum. En lestirnar verða bara að liggja til einhverra staða annarra en rauðljósahverfa eða svefnbæja, einhverra staða þar sem er starfsemi og líf.Það verður aldrei að finna í Kvosinni.

Reykjavíkurflugvöllur er málefni landsins alls. Franmtíð hans getur ekki ráðist aðp laumulegri atkvæðagreiðslu, illa kynntri með ómarktækri niðurstöðu í pólitískri kosningu vinstrafólks án þess að landsmenn allir fái að taka þátt. Þessvegna vil ég þjóðaratkvæði um málið þegar þjóðin kemur hvort eð er á kjörstað eins og í Alþingiskosningum eða Forsetakosningum í júni í ár.

Þorirðu í þjóðaratkvæði Lilja Guðrún ?

Það hefur víða verið kosið aftur til þess að þrautkanna vilja fólks, eins og í Noregi til dæmis. Þessi gervikosning um Vatnsmýrina sem R-listinn maskíneraði er gersamlega ómarktæk. Fólkið í landinu vill lifa á okkar tímum.

Ekki á 19.öld !

Halldór Jónsson, 29.3.2008 kl. 22:05

20 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Halldór:  Hahahahahaha.  Góður!  Ég vissi ekki að þetta vinstra pakk hefði líka staðið fyrir kosningunni um flugvöllinn, gat skeð að þeir stælu heiðrinum af, að standa fyrir, fyrstu lýðræðislegri kosningu, í Reykjavíkurborg. Fyrir utan venjulegar borgarstjórnarkosningar og kosningarnar um hundahald.

Já, nú fatta ég, kosningarnar um hundahald fóru þannig að yfirgnæfandi meirhluti Borgarbúa vildi ekki leyfa hundahald í borginni.   - En það vildi óprúttnum hundaeigendum, til happs, að þáverandi Borgarstjóri átti hund, og gat þ.a.l. ekki annað en hundsað niðurstöðurnar, og leyft öðrum borgurum að gera slíkt hið sama.  

Ég var á móti því, ég vildi leyfa þeim, sem áttu hunda fyrir þessar kosningar, að eiga þá áfram, en láta kosningaúrslit standa.  Og ég man ekki betur en að það hafi líka verið niðurstaðan hjá þáverandi Borgarstjóra. - Því kosningaúrslit eru kosningaúrslit. Ekki rétt?

   Og auðvitað er ég til í að skjóta deilumálum beint til þjóðarinnar í Þjóðaratkvæðisgreiðslu, ég tel það skildu mína sem þegn þessarar þjóðar, að taka þátt í kosningum, sem skotið er til þjóðarinnar, og virða, niðurstöður kosninganna, hvort sem þær eru að mínu skapi, eða ekki. -  Ég hefði t.a.m. sett dvöl hersins á Miðnesheiði í þjóðaratkvæði, Fjölmiðlafrumvarpið fræga, Vatnalagafrumvarpið,  Allar þessar fyrirhuguðu Virkjanir, og Álversframkvæmdir, s.s. Kárahnjúka, og þessa Olíuhreinsistöðvahugmynd. "Eftirlaunafrumvarpið", og síðast en ekki síst, "Kvótann í Þjóðareign" á ný, þetta tvennt mundi ég velja að sett yrði í þjóðaratkvæði strax, svo eitthvað sé nefnt.  En þú, ert þú til í, að leggja þessi málefni í dóm þjóðarinnar. 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 29.3.2008 kl. 23:14

21 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Halldór:  Eitt enn, hvernig líst þér á þessar hugmyndir hans Björns Kristinssonar Verkfr. sem ég segi frá hér í pistli mínum, og kostnaðarsamanburðinum?.,  það væri gaman, að heyra frá þér um það. Kveðja Lilja

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 29.3.2008 kl. 23:19

22 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Takk fyrir þennan fróðelga pistil Lilja.

Fegnust yrði ég að losna við einkabílinn og geta tekið metró í staðinn. Mér leiðist að keyra, finnst umferðin stressandi.

Myndi styðja það að hafa metró sem mest neðanjarðar.

Marta B Helgadóttir, 29.3.2008 kl. 23:42

23 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Marta: Mikið er ég sammála þér Marta. Ég vil líka eingöngu hafa metró neðanjarðar, get samt fallist á tillögu um rás og þak byggt yfir til að loka metró af frá umhverfinu. -  En ég vil ekki teina á götunum því það leysir engan vanda, nema síður sé.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 30.3.2008 kl. 00:03

24 Smámynd: Halldór Jónsson

Ég skoðaði hugmynd Björns Kristinssonar um Metróið í Kópavogi. Það kerfi sýnist mér myndi kosta 100 milljarða. En sá er hængu á við það, að teikningin(sem má nálgast af vef www.agbjarn.blog.is þjónar eiginlega mest bara sem tenging á milli svefnstaða í Kópavogi. Þetta væri ekki lausn fyrir mig sem sef í austurbæ Kópavogs en vinn í 201 í Bæjarlind. Teikning Björn sýnir bara gamla Kópavog sem er kannske þriðjungur af núverandi Kópavogi. Það mætti alveg spyrja bæjarstjórann okkar að því hvernig honum lístist á að taka lán fyrir svona 3-400 milljörðum til að byrja á svona metrókerfi( svona 30 ársveltur Kópavogs !) Svo má spyrja Ólaf F. um hvernig honum lítist á svipað hlutfall fyrir Reykjavík.

Metróið í Kópavogi myndi engu breyta fyrir mig sem yrði áfram að keyra í vinnuna. Svo spyr ég mig hvort mönnum þyki það ekki alveg nóg að skafa bílinn og komast inní hann kaldur og hrakinn, heldur en að fara að berjast á móti veðrinu útá næstu Metróstöð til þess að endurtaka leikinn frá endastöð, líklega 1-2 km meðalganga.

Ég met Björn Kristinsson mikils enda búinn að fræðast af honum í bráðum hálfa öld mér til mikillar blessunar. Ein besta hugmyndin frá þessum eldstólpa finnst mér sú að þurka upp Skerjafjörðinn. Þá er pláss fyrir flugvöll á milli Álftaness og Reykjavíkur og nóg af lóðum fyrir þá sem vilja búa í reiðhjólafæri við búllurnar í Kvosinni. 

Um þetta skrifaði Björn frábæra grein um árið og vona ég að Ágúst frændi hafi uppá henni og setji á netið hjá sér.

Sem sagt Lilja Guðrún. Mér finnst þú ekki vera í takt við heiminn eins og hann er orðinn og horfa meira í baksýnisspegilinn en fram á veginn.

það er ekki góð hugmynd að stjórna öllu með þjóðaratkvæðum. Rómverjar höfðu lítið álit á "Vulgus indoctus mobile horrendum que "

Múgurinn lætur stjórnast af tilfinningum en ekki rökhyggju. Grikkir fóru í gegnum þetta með Kléóni sútara á sínum tíma. Ég held að það yrði erfitt að ráða öllum málum til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslum, sem þó er hugsanlegt með virku posakerfi þar sem allir eru með kort. Viltu selja landið ? Greiddu atkvæði á næstu posastöð í boði Visa-Ísland. Hvernig líst þér á slíkt fyrirkomulag Lilja Guðrún ?

 Bretar tóku upp parlamentarismann fyrstir þjóða. Kjörnir fulltrúar eiga að leiða mál til lykta milli almennra kosninga fulltrúanna. Aðeins þannig er lýðræðið framkvæmanlegt. Tilfallandi meirihluti í borgarstjórn eða á þingi  á hinsvega að reyna að stýra samkvæmt vilja fólksins . Hann á að hafa vit til þess að reyna ekki að eyðileggja svo fyrir næsta meirihluta að óbætanlegt sé.

Þjóðaratkvæði um flugvöllinn sé ég fyrir mér sem leiðbeinandi fyrir ráðamenn til þess að átta sig á hvert þeir eigi að stefna.

Halldór Jónsson, 30.3.2008 kl. 09:35

25 Smámynd: Brynja skordal

Takk fyrir að taka mig sem bloggvin góður pistill hafðu góðan sunnudag

Brynja skordal, 30.3.2008 kl. 10:50

26 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

LG, mér finnst þú skemmtilega framsýn og bjartsýni þín vekur mér forvitni um möguleikana og ætla að lesa mér betur til áður en ég afgreiði málið sem óskhyggju.

Ég kynntist mömmu þinni, hún var yndisleg kona og mjög góð vinkona Jóns afa míns.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 30.3.2008 kl. 14:55

27 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Halldór:  Mér finnst þú all borubrattur í afturhaldsseminni, sjálfur verkfræðingurinn, - Þú hlýtur sjálfur að skissa upp hugmyndir þínar, þegar þú ert að velta fyrir þér hvernig best er að útfæra hugsun þína, eða hugmynd, af X verkefninu, þú hlýtur að gera áætlun um, hvernig þú getur hugsað þér svona framkvæmd á svona vinnu, áður en þú leggur til atlögu?  

-  Þú spyrð mig afstöðu Ólafs F. borgarstjóra, um hana get ég ekkert sagt annað en það sem ég skrifa í pistli mínum hér fyrir ofan, og vísa ég því í svar þar.

  En um Gunnar Birgisson bæjarstjóra í Kópavogi, get ég bara sagt, Gunnar  er framsýnn maður, - að vísu umdeildur, fyrir framsýni í framkvæmdum,  og þar hafa nú ekki allir verið hrifnir af framkvæmdagleði hans, þó enginn ræði um það nú, - En Gunnar bæjarstjóri er verkfræðingur að auki, og opinn fyrir hugmyndum, og ég er ekki í nokkrum vafa um, að svona hugmyndir muni Gunnar líta á, opnum huga.  Því hann hefur marg oft sagt, að hann horfir til framtíðar.

  - Svo spyr ég mig, hvort athugull, og skemmtilegur maður, eins og þú, lesir ekki vel, það sem hann ætlar að gagnrýna.  - Að sjálfsögðu lít ég oft til baka,  til að sæja mér þekkingu,  og læara af reynslu þeirra, sem á undan mér gengu, og miðla henni áfram, til minna afkomenda, þannig get ég horft stolt yfir farinn veg, og sagt:  Ég lagði þó mitt af mörkum, og nú er það þeirra, sem við taka, að nota mitt framlag að hluta eða allt, nú eða bara að hafna því, núna, en gefa öðrum tækifæri til að nýta það seinna. 

   Þannig viðhöldum við sköpuninni, hvort heldur með byggingu mannvirkja, götuvirkja eða byggingu hugverka. - Og þannig heldur hringrásin áfram. - Mér gæti í sjálfu sér verið hjartanlega sama hvernig umferðarsamgöngur verða á Stór - Höfuðborgarsvæðinu eftir 20-30 ár að ég tali nú ekki um eftir hundrað ár. 

   En núna er verið að leggja grunn að skipulagi fyrir umferðarmannvirkjum hér í borg, mannvirki sem munu kosta a.m.k. um 100 millharða, sem eiga að þjóna Íslendingum til næstu hundruð ára, og mér er bara kappsmál að leggja mitt af mörkum, til þeirrar umræðu nú fer fram, þó að ég sjálf, verði  kannski dauð, þegar úrvinnsla slíkra hugmynda, verður að veruleika, þá hef ég þó lagt, mitt lóð, á vogarskálarnar, um að fleiri möguleikar en nú eru uppi, verði ræddir, af alvöru.

   Því það að byrja að leggja, metró-kerfi núna, með það í huga, að stækka það, og víkka, þegar fram líða stundir.

   Er hagstæðasta,  og ódýrasta, lausnin, sem hægt er, að leggja fram, til höfuðs, þeim umferðarvanda, og því ófremdarástandi, sem hér ríkir í þessum málum, og þann fórnarkostnað sem við höfum þurft að horfa upp á, sem afleiðingu, fyrir röngum ákvörðunum við umferðarvandanum. 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 30.3.2008 kl. 23:00

28 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Takk fyrir Brynja!  Og vertu velkomin, ég hlakka til að bloggvinast á, við þig.       

Og þú Helga Guðrún!  Þakka þér fyrir hlý og falleg orð í garð móður minnar sem mér þótti undur vænt um.  Þú ert þá Jóns afabarn, hann var nú ekki síður yndislegur og hlýr maður. -  Ég hef þá kannski, hitt þig líka? Það væri gaman að heyra frá þér aftur, eftir að þú ert búin, að kynna þér málin, og sjá að það eru fleiri möguleikar í boði, í samgöngumálum en legið hafa uppi á borðinu. - Og takk fyir innlitið. Hlakka til að heyra frá þér.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 30.3.2008 kl. 23:15

29 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Mér finnst þetta algjör snilld! Mikið væri frábært að fá neðanjarðarlestir. Strætisvagnar myndu ganga líka, veðurfarið býður ekki upp á miklar göngur í hríðarbyljum. Ég myndi þá heimta að fá að vera ráðgjafi Strætó bs! Hef tekið strætó í áratugi og varð að flytja á Skagann til að geta tekið einn vagn í vinnuna, svona yfirleitt (þegar ég tek fyrsta vagn dagsins). Mikið klúður þetta nýja kerfi.

Guðríður Haraldsdóttir, 31.3.2008 kl. 21:50

30 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

´Sammála þér Gurrý!  Strætisvagnakerfið eins og það er notað núna er úrrelt fyrirbæri. - Miklu sniðugra, að hafa þá Skutlur í styttri leiðir til að skjóta fólki á  Metró-stöðvar.  Þær færu þá með stuttu millibili,  og stuttar leiðir hver um sig.  Þú getur séð dæmi um það, með því að ýta á, þar sem stendur þessi slóð hér, í pistlinum mínu hér fyrir ofan. 

 Þar sem " hér" er undirstrikað.  Þar sérðu nokkrar hugmyndir Björns, en áttar þig kannski best þegar þú skoðar dæmið um metró og skutlur í Kópavogi.

Ingunn sendir það "kort" líka í athugasemdunum hér fyrir ofan.  Kv. Lilja

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 31.3.2008 kl. 22:31

31 Smámynd: Halldór Jónsson

Sæl Guðrún,

Hvað finnst þér um tilllögu Björns um að þurrka upp Skerjafjörðinn og skaff þar með þessum óbornu afkomendum framtíðarland ? Mér finnst vanta að þú tjáir þig um þetta.

Ég er ekki viss um að afkomendur þínir eftir 100 ár muni blessa þig í bak og fyrir fyrir að hafa skuldsett  þá til hundrað ára til að byggja upp skuldbindandi samgöngutækni fyrir þá sem var fundin upp fyrir 150 árum bara af því að þér finnst hún sniðug í dag. Ég held að það geti verið komin til gerbreytt tækni eftir 100 ár eða fyrr sem okkur órar ekki fyrir í dag. 

Þú sem hagsýn húsmóðir ættir að velta fyrir þér hvort ekki sé hægt að skuldsetja sig of mikið og hvort ekki þurfi stundum að forgangsraða því sem gert verður.Er ekki allt í steik í þjóðfélaginu, grátandi öryrkjar, grenjandi gamalmenni, undirborgaðir kennarar og umönnurafólkið flest ? Hvar ætlarðu að fá pening í þetta allt ?

Sumir halda að lausnin sé bara að taka upp evruna. Hvað ef það væri gert á morgun og í ljós kæmi að laun  og kjör í Evrópu væru lægri en hér ?

Halldór Jónsson, 31.3.2008 kl. 22:31

32 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Veistu Halldór að mér finnst gaman, að gantast, og glettni er mér í blóð borin, en mér leiðast útúrsnúningar, til að forðast, að ræða, þau þjóðþrifamál, sem full þörf er á, að ræða.

Umræður um þjóðmál, og það, sem efst er á baugi,hverju sinni, finnst mér gaman að ræða, - og að hlusta, á aðra, skiptast á skoðunum, finnst mér gaman.

En útúrsnúningar og smjörklípuaðferðir,  koma engum að gagni, og eiga því ekki upp á pallborðið hjá mér,  og öðrum þeim sem lifa á 21. öldinni .  Ég vil frekar heilsteypt og hreinskilin samskipti, það heillar mig.

Ég hef heyrt um þá, sem fannst algjör óþarfi, á sínum tíma, að leggja síma, í hvert Krummaskuð.  - Hvað hafði fólk út á póstinn að setja.  Og hvaða máli skiptir, þó fréttir, komi viku fyrr, enn seinna. 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 31.3.2008 kl. 22:56

33 Smámynd: Halldór Jónsson

Jæja Lilja mín, ég sé þú hefur ekki húmor fyrir mér og ég kveð þarmeð.

Halldór Jónsson, 6.4.2008 kl. 23:34

34 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Jú, Halldór ég hef húmor fyrir þér, en ég vil hreinskiptin samskipti, ekki útúrsnúninga sem gjörsamlega er vonlaust að skilja, og skila þessvegna engu hvorki til mín né annarra sem lesa þetta blogg.

- Mig langar til, að þetta blogg sé vettvangur, uppbyggjandi og skapandi umræðna, sem taka á vandamálum sem upp koma af alvöru, og virðingu, og væntumþykju fyrir viðfangsefninu. Ef þessi atriði eru í farteskinu þá er húmorinn  aldrei langt undan.  Þá má aldeilis nota húmorinn. 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 7.4.2008 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband