Í Belgrad kynntist ég fyrst Eurovision, var þá reyndar þátttakandi á Alþjóðlegri l....

 

Í Belgrad kynntist ég fyrst Eurovisionsöngvakeppni,  var þá reyndar sjálf, þátttakandi á Alþjóðlegri Leiklistarhátíð. - En eitt af mörgu sem fyrir augu mín bar var, fyrrum sigurvegarar keppninnar.

 Það var haustið 1980, sem ég fór ásamt fríðu föruneyti með Þjóðleikhúsinu,  til Belgrad sem þá tilheyrði fyrrum Júgóslavíu. - Þjóðleikhúsinu hafði verið boðin  þátttaka, með sýninguna "Stundarfrið" á Alþjóðlega Leiklistarhátíð sem haldin var í Belgrad.  -  Stundarfriður eftir Guðmund Steinsson, verk sem hafði verið leikið fyrir troðfullu húsi strax frá  frumsýningu, og hafði þá þegar vakið athygli erlendis.  -  Það var langt og strangt ferðalag, frá Keflavík, til Köpen, - Köpen Zagreb- og Zagreb -Belgrad - allt á sama deginum eða sólarhringnum væri réttara. 

 Þegar til Belgrad var komið,  fengum við líka "höfðinglegar" móttökur. -  Það var farið með okkur eins og stórhöfðingja - 

Við fengum einkabílstjóra, sem voru með flögg á bílunum, og talstöðvar svo allir viku úr vegi þegar bíllinn birtist, - 

 Við vorum sett á mjög gott hótel sem staðsett var einhversstaðar á   - óskaplega flottu svæði og hinum megin var hraðbrautin, - svo allar flóttaleiðir voru klárar, - ef ske kynni leikhúsþyrstir aðdáendur,  ætlaði að kaffæra okkur í aðdáun. -  

Nei, án gríns þá var þetta með ólíkindum.  - Bílarnir voru svartar limmur, merktar opinberum erindrekum, og brjálaðir einkabílstjórar, með króníska bíla og hraðadellu, sem óku eins og þeir ættu lífið að leysa, annars yrðu þeir settir á höggstokkinn, ef þeir slægju af hraðanum, og ækju t.a.m. á löglegum hraða. -

Ég nefni t.d. eitt atvik,  við ökum á 170 km hraða eftir hraðbraut,  þá komum við að, þar sem búið er að setja upp svona "keilur" á hraðbrautinni, til að loka af eina akreinina, væntanlega vegna viðgerðar,  allavega voru þarna velmerktir vegagerðarmenn að búa sig til verka,  þegar okkur bar þar að.  - En vegagerðarmennirnir áttu fótum fjör að launa, þegar "einkabílstjórinn" okkar ók inn fyrir aflokaða svæðið, án þess að slá af hraðanum,  ruddi niður öllum keilunum, og öllum viðvörunum um leið og hann hló alveg tryllingslegum hlátri. - og þegar við litum útum afturrúðuna sáum við verkamennina liggjandi eins og hráviði fyrir utan veg.

Þarna, á þeirri stundu héldu tvær yngstu leikkonur, Þjóðleikhússins að nú væri komið að þeirra síðastu ferð, við vorum svo hræddar að við lágum veinandi í sætunum, á meðan á þessum glæfraakstri stóð. -

Eftir þetta atvik, pössuðum við okkur á því, að vera alltaf í fylgd fullorðinna leikara,  eða með túlkinn hjá okkur, á ferðum okkar með einkabílstjórunum.  -

Það var fleira sem við þurftum að passa okkur á, á þessum tíma var Tító, enn við völd, að vísu var hann orðinn gamall, en hann var mikilsvirtur leiðtogi, sem hafði haft vit á, að leyfa þjóð sinni að sækja sér menntunar út fyrir landsteinanna, og þá helst til Bandaríkjanna. -

Og þar sem hann var elskaður og dáður, var okkur sagt að við skyldum ekkert vera að nefna nafnið hans heldur segja "HANN" eða Sá Gamli" ef við þyrftum að ræða um Tító. -  Svo Júkkarnir  héldu ekki að við værum að tala illa um "HANN". - Það kæmi líka í veg fyrir allan óþarfa misskilning, sem annars gæti skapast. -

Nú eins og alþjóð væntanlega veit,  þá unnum við þessa Alþjóðlegu leiklistarhátíð. -  Stundarfriður var sem sagt kosin besta sýning hátíðarinnar. -  Og fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna. -

Í framhaldi af því var okkur haldin veisla, í einhverri rosaflottri höll, og þar voru okkur flutt skemmtiatriði,  þar sem flytjendurnir voru m.a. fyrrum sigurvegarar Júróvisjónkeppninnar,  og þau fluttu okkur sigurlagið sitt ásamt fleirum mjög skemmtilegum lögum,  sem þau voru með á prógammi sínu.  -

Þegar þau höfðu lokið söng sínum, komu þau og heilsuðu upp á okkur,  enda voru þau, að auki, vinir hennar Dönku aðaltúlksins okkar. - Þau höfðu líka fengið bókina sem gefin var út um þær sýningar sem sýndar voru á hátíðinni, og fengu okkur til að árita  hana, um leið og þau færðu okkur áritaðar plötur með sigurlagi þeirra úr Júróvisjón. -

Ég hafði aldrei áður hvorki séð né heyrt Júróvisjónkeppnir svo ég vissi varla hvað mér ætti að finnast, þegar ég var spurð álits, af þessum krökkum. - En ég get sagt ykkur það, að þau voru alveg þrusu góðir listamenn,  öll upp til hópa. - 

 Og það eru þau líka, fulltrúar okkar hún Regína Ósk og hann Friðrik Ómar, og sá hópur sem mun standa á sviðinu með þeim. -  Þau eru frábærir söngvarar og munu örugglega standa fyrir sínu, úti í Belgrad. 

Og á næsta ári þá verður haldin Alþjóðleg Leiklistarhátíð hér á Íslandi, og þar munu sigurvegarar síðustu Júróvisjónkeppni. -  Þau Friðrik Ómar og Regína Ósk ásamt Euróbandinu skemmta hátíðargestum með söng og leik.

Og þá verð ég búin að grafa upp gömlu tveggja laga plötuna, sem þau færðu mér sigurvegarar Söngvakeppni Evrópskra Sjónvarpsstöðva það árið. - platan er einhversstaðar í kassa niður í geymslu, man að Júgóslavneski fáninn er á plötuumslaginu.-

Og þá verð ég líka búin að færa þeim Friðriki Ómari og Regínu Ósk plötuna að gjöf, fyrir að vinna keppnina 2008.

Mikið hlakka ég til. -  En það er bara eitt sem er að angra mig. -  

Ég er að velta því fyrir mér,  hvort að allar þær hörmungar,  sem riðu yfir Júgóslavnesku þjóðina, þegar landið liðaðist í sundur í hörmulegum stríðsátökum milli þjóðarbrota  sem áður byggðu gömlu Júgóslavíu, í sátt og samlyndi, þar sem hver undi glaður við sitt. - 

Þá komst helvítið, hann Mílosevic til valda á fölskum forsendum, var búinn að kynda svo vel undir kynþáttahatri og öðrum viðbjóði,  valdatakan var honum leikur einn.  Og áður en við var litið voru nágrannar farnir að höggva mann og annan.  Í nafni Lýðræðis.

Og nú velti ég því fyrir mér, -  Hvort að það geti verið, að það eina sem allar þessar hörmungar og fórnir, færðu þeim þjóðarbrotum sem eftir lifa, sé tilbúið "Konungsríki" í Serbíu,  sem flaggar nú gerfi  "krónprinssessu og krónprins"  í Sönghöll Drottningar. -  Á  Eurovisionsöngvakeppninni í Belgrad.

Ég get ekki hugsað svona sorglega hugsun til enda, - Enda getur þetta ekki verið raunveruleiki.

Þetta hlýtur að vera djók.  Auglýsingaskrum, - eða hvað er orðið af Lýðræðinu, sem allt þetta fólk, lét lífið fyrir. -

 Lýðræðinu sem réttlæta áttu, öll þessi dráp,  og allt þetta hatur. - 

 Var þetta blóbað bara til þess eins, að koma á einhverju tilbúnu konungsríki.  - Er það ekki einræði líka.  -  Eru engin takmörk fyrir lýðskrumi. -

ÉG BÍÐ EFTIR AÐ VAKNA  -  OG ÞAÐ SEM ÉG SKAL HLÆGJA ÞEGAR ÉG KEMST AÐ ÞVÍ AÐ ÞETTA VAR BARA MARTRÖÐ. -  ÓÞÆGILEG MARTRÖÐ.  - AUÐVITAÐ ER HEIMURINN EKKI ORÐINN SVONA FIRRTUR.


mbl.is Eurobandið í sveiflu í Belgrad
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Sæl, þetta hefur nú ábyggilega verið óskaplega gaman, en ég er samt að velta fyrir mér hvaða Júgóslavnesku eurovision sigurvegarar það voru sem þið hittuð þarna árið 1980. Júgóslavar tóku fyrst þátt í þessarri keppni árið 1961 og kepptu á hverju ári til og með ársins 1976, með misjöfnum árangri eins og gengur. Lentu t.d. í 17. sæti árið 1976. Þeir hófu svo þátttöku aftur árið 1981 og tókst að lokum að sigra árið 1989 með lagið Rock me, flytjandinn heitir Riva. Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva var svo haldin í Zagreb árið 1990 þar sem Íslendingar náðu besta árangri sínum fram að þeim tíma, Stjórnin lenti í 4.sæti með lagið Eitt lag enn. Það ár urðu gestgjafarnir í 7. sæti með eftirminnilegt lag, Hajde da ludujemo í flutningi Tajci. Árið 1991 tók sameinuð Júgóslavía í síðasta skipti þátt í Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva, af ástæðum sem öllum eru kunnar.  Beztu kveðjur,

Markús frá Djúpalæk, 19.5.2008 kl. 18:19

2 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Ertu að segja mér að þetta hafi verið "Búið til" svona eins og krónprinsinn og krónprinssessan, núna. -  

Ég hef ekki hugmynd um, hvaða ár þau unnu með þessu lagi, en ég man hinsvegar að mér fannst þetta hafa verið árinu áður. Þetta var mjög gott lag, og þau frábærir söngvarar. -  

Þau höfðu öll verið í námi í Bandaríkjunum, um leið og túlkurinn okkar. -

 Þetta er svona það, sem ég skrifaði í dagbókina mína, frá þessum tíma. -  Ég hefði nú eflaust skrifað meira ef ég  hefði haft vit á. - 

En á þessum tíma, var enginn áhugi á Íslandi fyrir þessari keppni.   

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 19.5.2008 kl. 19:18

3 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Ja, áhuginn var ekki eins mikill á Íslandi þá, eins og hann síðar varð. En svona eru nú staðreyndirnar um þátttöku Júgóslava í Eurovision. Það voru Ísraelar sem sigruðu árin 1978 og 1979, semsé árin áður en þú varst stödd í Júgóslavíu. Írar sigruðu svo árið 1980. Ég var náttúrulega ekki þarna og veit ekkert hvernig ykkur var sagt frá þessu, og meginatriðið er auðvitað að eiga góðar og skemmtilegar minningar frá þessarri för.

Markús frá Djúpalæk, 19.5.2008 kl. 19:34

4 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Ég hef nú mikið heyrt talað um "uppsetningar" á hinu og þessu í hinum svokölluðu "ráðstjórnarríkjum" ég hef aldrei ímyndað mér að ég hafi verið áhorfandi að einni slíkri uppákomu. - Ég verð að finna plötuna, og koma henni til þín Markús. - Þá geturðu fundið út úr þessu fyrir mig. -

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 19.5.2008 kl. 19:41

5 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Margt hér að ofan í greininni þinni er ansi kunnuglegt frá gamalli tíð hér í Tékkó. þá sérstaklega bílstjórinn sem keyrði niður allar keilurnar á veginum... Heheheh ´

Síðan er ekkert ólíklegt að þeir, júkkarnir, hafi bara verið að monta sig með einhverju gerfibandi til þess að sýnast fyrir ykkur flottu leikurunum úr húsinu.

Það var svo mikil spilling hérna áður fyrr og maður lærði að trúa mátulega.

Ía Jóhannsdóttir, 19.5.2008 kl. 19:49

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gaman að þessari frásögn, og hvað sem líður sigurvegurum Júróvisjón, þá eigið þið heiður skilið fyrir að vinna leiklistarhátíðina.

Mín fyrstu kynni af Júróvisjó var aftur á móti í Svíþjóð mig minnir 62 eða 3, þegar Dansevíse vann. Þá var ég þar í lýðháskóla, og fékk að fara heim með yfirmatráðskonunni til að horfa á sjónvarpið og útsendingu júróvisjón. Síðan 1965 þá var ég að vinna í Paisley í Skotlandi á elliheimil, og fékk sérstakt leyfi til að vaka og horfa á Júróvisjón inn í samkomusal heimilisins, ein í risastóru herbergi, og ég man ekki hver vann, nema að frá Rússlandi kom sköllóttur óperusöngvari, sem mér fanns ógeðslega fyndið.  Jú það var írska lagið hennar Dönu all kinds of everything sem vann þá.

Jamm svo ég hef ansi lengi verið aðdáandi söngvakeppninnar og var rosalega glöð, þegar byrjað var að sýna hana hér á landi.  Var reyndar í dómnefndinni þegar franska lagið vann.  Man ekki hvað það heitir.  Það var rosaspes, við vorum lokuð inni í sjónvarpssal, og fengum ekki að heyra hvernig kosningin gekk fyrr en eftir að atkvæðagreiðslan um Ísland hafði farið fram.  Það var ævintýri.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.5.2008 kl. 20:25

7 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Æfintýraleg frásögn og skemmtileg. Eiginlega bara betri ef þið voruð eitthvað göbbuð

Hólmdís Hjartardóttir, 19.5.2008 kl. 20:33

8 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Fyndið, Ía.  Þegar maður hugsar til þess, að einhver hafi verið að sýnast til að ganga í augun á okkur, venjulegum Íslendingum sem gerum engan greinarmun á Kóngi,  eða Síldarkóngi, nema sá síðarnefndi hefur unnið fyrir titlinum, og fyrir því berum við virðingu.

Ég man líka eftir því þegar Havel og Olga komu hingað,  þegar Havel var nýorðinn forseti, sérstaklega eru mér minnisstæðir lífverðirnir hans, þeir voru svo rosalega nervusir. 

- þeir voru búnir að koma mörgum sinnum niðrí leikhús, og æfa ásamt sérsveitinni.

- En svo þegar að sjálfri Hátíðarsýningunni kom,  þá voru þeir skjálfandi á beinunum, af hræðslu.  Ég spurði þá hvað væri að -

 Þá kom í ljós að, þetta voru allt leikarar að leika lífverði, það var skilyrði að Havel hefði með sér lífverði, og tíminn var naumur svo hann fékk með sér vini sína úr leikhúsinu, til að leika fyrir sig lífverði.

Þeir sögðu mér að í fyrstu hafi þeim fundist þetta alveg rosalega fyndið, og gaman, en nú þegar á hólminn væri  komið voru þeir alveg skelfingu lostnir. - 

 Þeir voru svo hræddir um að ef það mundi, springa pera í kastara, eða eitthvað álíka, gæti það komið af stað skotbardaga.

- Því þarna voru líka hinir ýmsu sendiherrar m.a. sendiherra Bandaríkjanna, og Shirley Temple manstu eftir henni barnastjörnunni, hún var þá sendiherra Bandaríkjanna í Tékklandi.

- Ég hef aldrei hitt jafn glaða lífverði í fumsýningarveislu, eins og þessa skemmtilegu leikara.

Og í boði hjá Forseta vorum, léku þeir líka á alls oddi, enda ferðinni brátt að ljúka og þá,  tækju þeir aftur til við hlutverk sín í leikhúsinu. Sem þeim fannst henta sér betur.

Var það þá líka blekking?

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 19.5.2008 kl. 20:41

9 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Lilja Guðrún, það væri nú gaman að fá að sjá þessa plötu, þó ekki væri annað. En svo ætla ég að stelast til að  halda aðeins áfram að Eurovision nördast á þinni síðu, og skemma skemmtilegar frásagnir með þurrum staðreyndum. Danir unnu með Dansevise 1963, en árið 1965 sigruðu Lúxemborgarar með lagið Poupée de cire, Poupée de son í flutningi France Gall. All kinds of everything með Dönu sigraði fyrir hönd Íra árið 1970. Sköllótti óperusöngvarinn hefur sennilega verið annars staðar frá en Rússlandi, því rússar tóku ekki þátt í Eurovision fyrr en árið 1994. En sögurnar eru allar góðar og skemmtilegar... og aldrei á maður að láta góða sögu gjalda sannleikans

Markús frá Djúpalæk, 19.5.2008 kl. 20:58

10 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Og frakkar hafa unnið í þessarri keppni fimm sinnum seinast árið 1977 með laginu L’oiseau et l'enfant, en það var 9 árum áður en íslendingar tóku fyrst þátt. Var það kannski belgíska lagið sem þú áttir við, Ásthildur, sem sigraði 1986; hin barnunga Sandra Kim með J´aime la vie?

Markús frá Djúpalæk, 19.5.2008 kl. 21:02

11 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Virkilega gaman að lesa bæði þín frásögn og svo öll kommentin.  Svona getur minnið brugðist manni með árunum, en ég hef upplifað að sjá Jhonny Logan og ABBA á sviði í Noregi, sitthvort árið, ætla ekki að giska á ártöl en það var eftir 1973 og fyrir 1977, knús á þig elskuleg.

Ásdís Sigurðardóttir, 19.5.2008 kl. 21:25

12 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Skemmtileg frásögn hjá þér Ásthildur!  Hlýtur að vekja upp góðar minningar, að rifja upp þessa tíma.  Varst þú þá í fystu "dómnefndinni" hér heima?  Þú ert náttúrulega úr músikbransanum svo þú gjörþekkir til verka. -

Já, Ásthidlur, ég er enn alveg rígmontin af velgengni okkar þarna í Belgrad og sigurgöngu verksins upp frá því.  Stundarfriður hefur verið leikinn um allan heim, m.a.s. í Japan. - Og það er gaman að hafa tekið þátt í  frumuppfærslu verksins og hafa fengið að ferðast með sýninguna það vítt og breitt um heiminn. Ég held að ég bloggi bara um það seinna.   

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 19.5.2008 kl. 21:41

13 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Já, Hólmfríður, það er einmitt miklu skemmtilegra ef það kemur upp úr dúrnum að við höfum verið göbbuð,  - Mér finnst það alveg rosalega fyndið.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 19.5.2008 kl. 21:44

14 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Markús það er alveg á hreinu að ég mun fara við fyrsta tækifæri og finna plötuna.  - Held m.a.s. að ég viti í hvaða kassa hún er.-  Hefurðu lesið það sem Ía skrifar. Hún talar sko af reynslu.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 19.5.2008 kl. 21:46

15 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Ásdís var ekki gaman að sjá ABBA þau voru svo flott og góðir dansarar líka. -Og Jhonny Logan er alveg sér á parti. 

 M.a.s. ég veit hver þau eru þó ég hafi aldrei haft áhuga á Eurovision fyrr enn Íslendingar fóru að taka þátt. 

En iðulega hef ég verið að sýna á þeim kvöldum sem keppnin er svo ég hef lítið getað fylgst með, Íslendingunum heldur.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 19.5.2008 kl. 21:55

16 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Lilja, já. Það er margt merkilegt í veröldinni. Hégómagirndin í arfaslökum stjórnvöldum er eitt af því. En það er gaman að lesa það sem þið skrifið, skemmtilegu konur.

Markús frá Djúpalæk, 19.5.2008 kl. 22:01

17 identicon

Gaman að lesa frásögnina þína og kommentin hérna en mikið er ég orðin eitthvað leið á Júróvisíon, ég ætla samt að horfa eins og venjulega og stútera klæðnaðinn og myndatökuna og svo auðvitað lögin.  Svo þegar kemur að stigagjöfinni þá er best að slökkva áður en maður kafnar  ...

Knús til þín Lilja mín ....

Maddý (IP-tala skráð) 19.5.2008 kl. 22:31

18 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Takk sömuleiðis Maddý mín, ætli það verði ekki það sama hjá mér ég hlusta, og horfi með öðru aðallega til að skoða, sviðið, sviðshreyfingarnar, búningana, förðun, hárgreiðslu osfrv.

 _ Það versta er að þó að ég ætti að vinna mér það til lífs,  þá get ég ekki munað hvernig  "okkar" framlag hljómar.  En ég man hin lögin, sem urðu númer 2, 3, 4, og 5.

Svo mér finnst þetta hljóta að merkja það að landanum muni ganga alveg sérlega vel í ár.

Ég er nefnilega algjörlega smekklaus gagnvart lagavali í þessa keppni. 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 19.5.2008 kl. 22:50

19 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir þennan frábæra pistil LG.

Ég sá Stundarfrið í sænska sjónvarpinu og þig auðvitað og þú ert mér afskaplega minnistæð.

Í skólanum daginn eftir var ég spurð spjörunum úr.  Var svona mikið stress á Íslandi?  Af hverju voru konurnar í svona flottum fötum?  Eru allar íslenskar konur svona flott klæddar?

And on, and on, and on.

Já og varðandi þjóðarmorðin í fyrrum Júgóslavíu, á tímbabili var ég svon barnaleg að halda að Hitler væri undantekning í annars siðuðum heimi.

Jeræt.

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.5.2008 kl. 23:31

20 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Takk fyrir frábæran pistil Lilja, júróvísíon ... það er alltaf einhver stemming yfir þessari keppni, mér finnst þetta skemmtilegt en tek þó undir með Maddý að það er sennilega best að slökkva áður en að stigagjöfinni kemur. Eitt árið, þegar Björgvin söng "Núna" þá var ég ekki viðlátin til að sjá keppnina, var reyndar í leikhúsinu en man því miður ekki hvaða leiksýningu sé sá, getur það hafa verið Gauragangur? Þá var því laumað inní sýninguna í hvaða sæti Bó lenti og leikararnir sungu brot úr laginu. Það fannst mér algjör snilld.

Annars hefði ég gefið hægri handlegginn ... á brúðunni minni, fyrir að sjá ABBA live, því líkir snillingar og ekki versnar það með Johnny Logan. Mér skilst reyndar að það sé hægt að sjá hann hér á Íslandi núna í vikunni en því miður gefst ekki kostur á Abba lengur.

Hvað varðar Tító og Júgóslavíu þá voru það skelfilegir tímar þó vissulega hafi maður lifað í þeirri barnalegu villu sem Jenný lýsir ágætlega hér að ofan.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 20.5.2008 kl. 00:05

21 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þetta var alveg frábærlega vel skrifað verk, sem kom landanum í svo opna skjöldu að verkið hafði náð augum alheimsins áður en landinn náði að átta sig, á hvað verið var að segja, því var ekki hægt að kæfa það, svo sem títt var á þessum tímum, og er kannski enn. --

 T.d. var verkið sem Guðmundur skrifaði um sömu fjölskyldu 15 árum seinna, kaffært í fæðingu, undir því fororði að svona gæti ekki komið fyrir neina Íslenska fjölskyldu, hvað þá fjlskyldu sem hefði haft það svo gott. 

Leikritið fjallaði nefnilega um það sem er að gerast hér á landi í dag, - lífið á bak við glamúrinn. 

-  Kollsteypu efnahagslífsins, uppsagnir,  og afleiðingar offjárfestinga á þenslu, og atvinnuleysi.

Um verðmætamat, - hvernig heimilin, brotna endanlega, ef þjóðin ber ekki gæfu til að forgangsraða rétt, með því að setja fjölskylduna í öndvegi. - 

Þar eru verðmætin mest. 

Ég var,  og er enn,  jafn barnaleg og þú varst Jenný,  -   ég vil enn trúa því að Hitler og hans líkar hafi verið undantekningin, -  sem minnir okkur á, að ekkert er sjálfgert, ekki einusinni réttlætiskenndin, né heiðarleikinn. 

 Því má maður ekki sofna á verðinum, við verðum að upplýsa alla, um þá vá, sem yfir þjóð okkar vofir, ef Íslendingar eru hættir að finna fyrir samlíðun, með þeim sem ekkert á. 

Ef firringin og græðgin hefur gripið Íslendinga þvílíkum heljartökum að við greinum ekki á milli raunverulegra hörmunga,  í formi hungurs, kulda og dauða, saklausra barna og kvenna. -  Eða blankheita sem geta skapast vegna tímabundinna erfiðleika, sem upp geta komið í öllum Íslenskum fjölskyldum. - 

Einungis lítilmenni leyfa sér að bera saman jafn gjörólíkar aðstæður, og leggja þær að jöfnu. -

 Og einungis lítilmenni ætla að notfæra sér það sem forsendu fyrir höfnun,  á að veita þessum langhrjáðu börnum og mæðrum þeirra varanlegt skjól. -

  Slíka mannvonsku og grimmd, hef ég átt erfitt með að ímynda mér að blundaði í nokkrum siðmenntuðum manni.

En svona hegðun afhjúpar best,  þá forheimsku sem óprúttnir pólitíkusar nota til að ota sínum, tota.   

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 20.5.2008 kl. 01:56

22 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Já, Ingibjörg,  -  Það getur passað að það hafi verið sýning á Gauragangi þegar Björgvin söng, ég man að eldri dóttir mín var þá skiptinemi í Hollandi og sat með vinum sínum og skólafélögum og horfði á keppnina,  og var alveg sárlega móðguð, yfir dónaskap þularins sem skemmti sjálfum sér og áhorfendum með glettnum athugasemdum um búninga og framkomu flytjendanna, og svo keyrði um þverbak þegar kom að Íslandi, þá sagði þulurinn:  -  Já, já, Ísland, man nú ekkert hvernig sá flytjandi er, jú það er þessi í jakkanum, æpir þulurinn og emjaði úr hlátri, um leið birtist Björgvin á skjánum, og félagar dóttur minnar gleymdu allri kurteisi, og skellihlógu. Þetta fannst minni dæmalaus ósvífni, að eyðileggja svona upplifun fólks að aðalatriðinu sem er "sönglagið" og frábær söngur flytjandans, en þarna tókst þulinum að færa fókusinn af "aðalatriðinu" yfir á  "aukaatriðið".-  Eftir það horfði hún aldrei á Eurovision þau 11 ár sem hún bjó úti, enda virðist ekki mikill áhugi meðal almennings fyrir Júróvisjón, í Evrópu. 

Já, Hallgerður! -  1980, var það ekki um það bil í fyrragær, svona nokkurn veginn finnst mér það, svo fljótt hefur tíminn liðið.

 - Ég er rosalega forvitin um hálparhelluna þína sem athafnar sig sjálf. - Þessi sem þú bloggaðir um, hér um daginn?  Hvaðan er hún? Og er hún dýr?

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 20.5.2008 kl. 12:29

23 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvitt og bestu kveðjur

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 20.5.2008 kl. 13:05

24 identicon

held að við verðum bara að hafa júró partý mammsa mín og hafa það sem afmælisveislu þar sem að allir eru eitthvað slappir og framtakslausir í dag :)

    ohh ekki minnast á gauragang. Vildi óska þess að sú sýning hefði verið tekin upp. Bara sú fyrri ekki meiri Gauragangur.

     Gjörsamlega elskaði þá sýningu.

Ingunn Valgerður Henriksen (IP-tala skráð) 20.5.2008 kl. 16:16

25 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Heheheh ég man þegar Havel og Olga komu heim en ég vissi nú ekki af þessari leiksýningu, ég meina með lífverðina.

Annars voru þeir ekkert betri þegar Vigdís kom hingað í opinbera.  Eftir að hafa farið með fyrirfólkinu að sjá Mávinn borðuðum við saman á Rvík.  Vigdís vildi síðan ganga yfir brúnna eftir að hún hafi kvatt Havel og tók Þóri undir arminn og dró af stað með sér.  Hef aldrei séð annað eins handapat á lífvörðum fyrr eða síðar.  Þeir spóluðu og vissu ekkert hvað á sig stóð veðrið.  Góluðu í kalltækin: The  President of Iceland is walking all by her self

Hehehe við skemmtum okkur vel það kvöld! 

Shirley Tample Black var mikil vinkona okkar þegar hún bjó hérna í Prag. Hef aldrei séð aðra eins ,,leiksýningu" eins og hún performeraði hér á þjóðhátíðadaginn 4. júlí. 

 Okkur Þóri var boðið að taka hundinn hennar í fóstur þegar hún flutti héðan, hann hét Gorbi eftir þeim fræga manni.  Enginn vildi hundspottið þegar hún fór.  Veit ekkert hvað varð um kvikindið. En þegar Gorbi kom hingað í ópinbera heimsókn var öllum þjónum sendiráðsins skipað að kalla hundinn Tom, en hundurinn gengdi því nafni auðvitað ekki svo upp varð fórur og fit þegar þjónarnir voru að elta spottið um alla sali hússins.

Ía Jóhannsdóttir, 20.5.2008 kl. 16:45

26 Smámynd: Tiger

  ... stórskemmtilegur pistill hjá þér. Frábær lesning og ég er handviss um að það hefur verið æðislega gaman að upplifa þetta. Kannski ég eigi eftir að kynnast framtíðarjúró - ef ég verð einhvern tíman stór..

Tiger, 20.5.2008 kl. 18:21

27 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Vá! Færslan varáhugaverð en athugasemdirnar vor áhugaverðari....

Gunnar Helgi Eysteinsson, 20.5.2008 kl. 18:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband