Bragð er að þá barnið finnur ...

Eitt finnst mér skrítið amma, sagði sjö ára ömmustelpan mín, þar sem hún sat og hafði verið að fylgjast með fréttum á báðum stöðvum.  -  Ég hafði tekið eftir þessum frétta áhuga barnsins, og heyrði nú á rödd hennar að eitthvað  lá í loftinu. -  Eitt finnst mér verulega skrítið amma, endurtók stelpan. -  og hljómaði nú eins og henni væri gróflega misboðið. - Nú, hvað er það, sem þér finnst svona skrítið, ljúfan mín? -  Sko, amma, - það er alltaf, verið að tala við mennina, allsstaðar, í sjónvarpinu, og útvarpinu, og blöðunum,  þó að þeir skori ekki neitt,  bæði í gær, og núna er bara talað við þá, og sýnt myndir af þeim í sjónvarpinu, þó að þeir hafi ekki unnið einn einasta leik, þá er samt talað við þá. - og bara þá. - Nújá, segir amma hissa

 - En það er ekkert, talað við okkur, og samt skoraði ég fyrstu körfuna, á mótinu, og svo unnum við þrjá leiki af fjórum, og það er samt, ekkert talað við okkur,  ekki einusinni mynd af okkur.                  - Finnst þér þetta ekkert skrítið amma mín?  - Ég skil nú ekki alveg hvað þú átt við elskan mín. - Amma! segir ömmustelpa og gefur ekkert eftir: - Hvernig fyndist þér, amma, ef þú, værir að spila, í fyrsta skipti á körfuboltamóti, og þú mundir skora, fyrstu körfu mótsins,  og allir mundu klappa fyrir þér, og svo mundir þú skora flest stigin og liðið þitt mundi vinna, þrjá leiki af fjórum, - og, það væri bara ekkert, talað við þig í sjónvarpinu, eða ykkur í liðinu. - Ég veit ekki segir amma ég .......

    Bara talað við mennina, heldur sú stutta áfram og stynur þungan. - Sem hafa ekkert skorað, og ekkert unnið, bara tapað.  -Ekkert svar -  Ha, amma, þætti þér það ekkert skrítið? - Löng þögn - 

   Svo, eru þeir alltaf að tala um menn sem þeir þekkja ekki einusinni. - Nú, spyr amma; Þekkja ekki? -  Já, vita ekkert hvað þeir heita, - hélt ömmustlepan áfram og var nú greinilega farið að þykja nóg um áhugaleysi ömmu á vinnu sjónvarpsfréttamanna. - Ha, hváði amma, vita þeir ekki hvað þeir heita?  -  

   Nei, þeir kunna ekki einusinni að segja nafnið hans XYZ!, -  Óh, hvað segirðu, það gengur náttúrulega ekki, svarar amma, og reynir að vera mjög alvarleg.  -  Mér finnst þetta, mjög óréttlátt, amma. sagði súlkan og  var nú orðin heldur döpur -  - Já, sagði amma og reyndi að finna rétt huggunarorð, fyrir litlu telpuna sína:  Kannski kemur nú eitthvað, um mótið þitt í blöðunum.  -  Nei amma mín, þá væri það löngu komið. - Hehm,  en kannski í helgarsportinu, reynir amma aftur, - Nei amma, ég er búin að horfa á fréttirnar alla vikuna og líka helgarsportið og það var bara talað við menn.

-  Þá er nú ömmu nóg boðið:  Veistu, telpa mín, ég er sammála þér, það ætti að gera miklu meira afþví, að segja  frá svona mótum, og tala við krakkanna sem taka þátt,  því það á að láta vita þegar krökkum gengur vel. - "Því þá langar fleirum að taka þátt og það er gaman": skýtur ömmustelpa inní.

 - Já, einmitt, - og þetta mót, er einmitt ætlað, til að hvetja öll börn til að taka þátt í íþróttum, þessvegna er lagt kapp á að allir spili,  að öll börn fái að reyna sig, ekki bara fáeinir útvaldir.  Því þannig eiga öll barnamót að vera. -  Já, amma það finnst mér einmitt líka, - og er nú heldur farin að léttast á henni brúnin. 

    Og amma, mér finnst líka, að það ætti bara að vera "sér íþróttaþáttur" fyrir okkur, krakkanna. -  Já, það er góð hugmynd!, segir amma hrifin, - það væri sniðugt að gera. -  Já, sagði ömmustelpa ánægð með jákvæðar undirtektir ömmu: 

   Til dæmis á undan Stundinni okkar eða á eftir, og líka teiknimyndunum. "það væri hægt að hafa krakkaíþróttaþátt á hverjum degi alveg eins og fullorðins" -  Já, já, það ætti nú alveg að vera hægt, svaraði amma. -  " Já, allavega, verða þeir að fara að tala við okkur líka, sagði  barnið og dæsti". -   Já, það verða þeir að fara að gera.  - endurtók amma um leið og hún kyssti hnátuna sína góða nótt.  En hugsaði um leið:  BRAGÐ ER AÐ ÞÁ BARNIÐ FINNUR.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Segir ekki einhvers staðar; af munni barna og gamalmenna heyrir maður sannleikann?

Ég hélt satt best að segja, að þessar litlu stúlkur, barnabörnin okkar, myndu upplifa jafnrétti og jafna möguleika.  Þetta hélt ég á Kvennafrídaginn, þegar Kvennalistinn fór fram, þegar við opnuðum Kvennaathvarf, Stígamót og ég gæti haldið áfram.  Því miður er það ekki svo.  En þá er bara að halda áfram að berjast og nú eru ungu konurnar í baráttunni á kafi í því.

En mikið skelfing er hún mikil dúlla þessi ömmustelpa sem þú átt. 

Njóttu dagsins mín kæra og takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 6.4.2008 kl. 09:28

2 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Rökföst og smart sú litla. Tek undir með Jenný Önnu að öðru leyti.

Steingerður Steinarsdóttir, 6.4.2008 kl. 09:55

3 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Elsku litla ljósið. Það er ekki nema von hún sé undrandi. Það er sárasjaldan sem börn fá jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum - enda þykir það víst ekki fréttnæmt þegar börnin eru að iðka íþróttir eða eru til fyrirmyndar á einhvern hátt. Fjölmiðlar eru hins vegar fljótir að bregðast við ef börnin misstíga sig á einhvern hátt.  Undarlegt fréttamat. Sú stutta má þó vera þakklát fyrir að eiga góða og skilningsríka ömmu.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 6.4.2008 kl. 12:10

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flott stúlka, hún verður einhverntímann góð. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.4.2008 kl. 15:18

5 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Skarpa Lilja. Það snart mig mest tilsvör þín í samræðunni, hlýjan, bilið, þögnin til umhugsunar og skilnings, þessi mátulega miklu orð sem fær barnið til að pæla skapandi í tilverunni. Góða amma, takk fyrir mig og ég óska þér til hamingju með  fríðan barnahóp.

Eva Benjamínsdóttir, 6.4.2008 kl. 15:31

6 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Jenný: Alveg rétt!., ég var nú búin að gleyma þessu máltæki. - Þegar ég stóð ásamt móður minni á Lækjartorgi '75, bar ég, móður ömmustelpu undir belti,  og ég man að þegar konurnar á sviðinu sungu "Áfram stelpur" þá hvíslaði móðir mín að mér, með tárin í augunum af stolti yfir þátttöku kynsystra sinna á fundinum, "nú loks erum við á réttri leið".

  -   25 árum síðar, var bumbubúinn minn, með þessa kröftugu ömmustelpu í kúlunni sinni.  -  Og verðandi amman stóð, og hélt fast utan um frumburð sinn, og bað til Guðs, að þegar ömmustelpan,  sem von var á í heiminn innan skamms, yrði 25. ára þyrfti hún ekki að upplifa þá skömm að enn væri troðið á jafnrétti á Íslandi í nafni "frelsis"  -  og misrétti, og misbeiting valds væri eitthvað sem heyrði sögunni til.

Annars er ömmustelpa ný flutt til landsins, alin upp, meirihluta sinnar skömmu ævi í Hollandi, og þar eru börnin sett í öndvegi. -  Enda eru þau framtíðin.  - Og það veit mín, og gerir þessvegna kröfur um, að skoðanir barna séu virtar, og á þau sé hlustað, og þau metin að verðleikum. 

Steingerður:  Já, hún er mjög rökföst, enda á hún mjög rökfasta móður. En hún var á Alþjóðlegum leikskóla frá 6. mánaða aldri og þar eru börnum kennt að færa rök fyrir sínu máli. 

Ragnh.: Það er nefnilega rétt hjá þeirri stuttu, að alltof lítið, er gert að því, að fjalla á jákvæðan hátt, um börn í fjölmiðlum.  Og segja frá því, sem þau eru að gera. 

   Þetta er líka verðugt verkefni, fyrir Íþróttahreyfinguna í landinu að vinna úr og byrja strax.  -  Því " Afþví læra börnin að fyrir þeim er haft", og ef þau sjá eingöngu neikvæða umfjöllun um börn og unglinga,  -  lesa þau skilaboðin sem svo:  Ef þú vilt ná athygli, þá skaltu brjóta eitthvað af þér! -  Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessu fyrr. -  Því sjálf hef ég verið önnum kafin við að ala önn fyrir börnum mínum.  - En núna er ég farin að uppskera. 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 6.4.2008 kl. 15:34

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta er sko algjörlega sannleikurinn sem litla ömmustelpan þín segir. Hún er að byrja að kynnast óréttlætinu í upplýsingastreymi um íþróttir, svona kemur þetta til hennar smátt og smátt næstu árin.  Vonandi lagast þetta samt.  Eigðu ljúfa viku elsku Lilja og takk fyrir alla fallega hvatningu hjá mér síðustu vikur. 

Ásdís Sigurðardóttir, 6.4.2008 kl. 22:52

8 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Ægir: Þakka þér fyrir falleg orð.  Annars var rökfestan aðallega hjá þeirri stuttu. 

Ásdís: Já, það er dapurlegt til þess að vita að börnin eru orðin eins og einhver afgangsstærð í þessu fjölmiðlaþjóðfélagi okkar.  Þegar sjónvarpið byrjaði var Stundin okkar (klukkustund) 60 mínútur smá saman hefur hún styst,og var komin niður í 15. mínútur um tíma, held að núna sé "Stundin okkar" heilar 25 mínútur.

 -  Annað barnaefni er aðallega á engilsaxneskri tungu. Það er vont til þess að vita, að á virkum dögum, þá heyra börn á máltökuskeiði,  meira talað á enskri tungu heima hjá sér,  en Íslensku.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 6.4.2008 kl. 23:21

9 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Flott færsla og flott ömmustelpa sem þú átt. Það er gott fyrir íþróttahreyfinguna að vita af svona stelpu sem snemma er farin að berjast fyrir aukinni umfjöllun um íþróttir barna og unglinga.

Fyrir mörgum árum vann ég með blaðamanni sem gekk undir nafninu AliBaba, og hann var ótrúlega duglegur að skrifa um íþróttir barna og unglinga. Hann mætti á flest öll mót og lagði mikla ástúð við sína vinnu. En því miður var sorglegt að horfa uppá það hvað aðrir íþróttafréttamenn höfðu litlar mætur á vinnu þessa manns, hann fékk lítið pláss í blaðinu og oftar en ekki þurfti hann að minnka texta og skera niður myndir til þess að koma sínu á framfæri, enda hafði einhver stórstjarnan sem ekki var hægt að bera fram nafnið á (örugglega þessi XYZ) rekið tánna í þröskuld og var víst ógurlega kvalinn. Við AliBaba vorum á þessum tíma einskonar samherjar því á sínum tíma hóf ég að skrifa um boltaíþróttir kvenna í hálfgerðri sjálfsvörn og mátti þola sama niðurskurð á mínum fréttum og hann.

Á endanum gafst hann uppá verkinu og lést hann fyrir nokkrum árum. Skrif mín um íþróttir eru líka að fara niður í ekki neitt, enda nóg að gera hjá minni eftir að hafa stundað blaðamennsku sem hobbý í ríflega 20 ár.

Hugmyndin um íþróttaþátt barnanna á undan Stundinni okkar er hins vegar alveg brilljant og ég er ekki frá því að þú eigir að stinga þessari hugmynd að dagskrárstjóra Sjónvarpsins.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 6.4.2008 kl. 23:53

10 identicon

æji hún er svo mikið súperkrútt hún Gigja píja við stórfjölskyldan vorum einmitt í heimsókn hjá þeim mæðgum í dag voða kósý bara.

   Börnin og unga fólkið gleymist alltaf það er bara þannig. Þá er ég ekki samt að tala bara um unglingana heldur fólk á aldur við mig :) sem er að hefja líf og eignast börn og byggja framtíð. 

Ingunn Valgerður Henriksen (IP-tala skráð) 7.4.2008 kl. 00:15

11 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Ingibjörg: Alveg rétt ég man eftir Alibaba, hver var það nú aftur! Það er nefnilega rétt hjá ömmustelpunni að það er ekkert um íþróttir barna í fjölmiðlum þeim hefur gjörsamlega verið ýtt útaf þeim vettvangi. Þú hefur nú staðið þig eins og hetja 20 ár er langur tími að halda út í, þegar ekki einusinni  heyrist takk  frá þeim sem njóta þrautseigju þinnar. Já, maður ætti kannski að stinga  þessari hugmynd að ??? ja, að hverjum?

Inga:   Já, það hefur bara verið útstáelsi á stórfjölskyldunni í dag.   Æ, það er yndislegt að heyra.

- Já, það mætti svo sannarlega vekja athygli á stöðu barnafjölskyldunnar í dag.  Kíktu á bloggið hennar  Jónu "Jonaa", hún skrifaði mjög góðan pistil um þau mál í dag.  

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 7.4.2008 kl. 01:36

12 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Úff, ég man líka hvað ég var sannfærð um það á Kvennafrídaginn 1975 að fullt jafnrétti væri bara rétt handan við hornið. Alveg pottþétt komið þegar ég færi út á vinnumarkaðinn.

Núna hef ég bullandi áhyggjur af framtíð 7 ára dætranna. Af hverju ætti þetta að lagast á næstu 30 árum, fyrst það batnaði ekki meira en raun ber vitni á síðustu 30? Af því bara? Trúa konur að þetta gerist af sjálfu sér?

Verð ægilega, skelfilega frústreruð við tilhugsunina. En passa mig á að stappa stálinu í stelpurnar mínar daglega. "Þið getið ALLT, muna það!!"

p.s. Takk fyrir leikinn í Mannaveiðum. Magnað að sjá hverju er hægt að koma til skila án orða ;)

Ragnhildur Sverrisdóttir, 7.4.2008 kl. 09:13

13 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Sæl Ragnhildur!  Við mæðgur deilum með þér áhyggjum þínum af framtíð 7 ára stúlkubarna. -  Ef fer fram, sem horfir, þá verður staðan óbreytt á 50 ára afmæli "Kvennafrídagsins" því það sem þá náðist í jafnréttismálum, var afgreitt sem,   "Jæja,  þá er það búið,  nú getum við farið að snúa okkur að skemmtiatriðunum".

   Allir voru svooooo ánægðir með "jafnréttið sitt", og shreyktu sér af því, að  það væri nú, "einsdæmi" í heiminum hve "mikið" jafnrétti var á Íslandi. - Því var algjör óþarfi að tala um það meir. -  Ekkert kvennakjaftæði meir, það er búið að redda því. - Og staðan, er núna sú, að það, sem hafði þó áunnist, hvarf, eins og hendi væri veifað. -  Ég hef alið mínar stelpur upp, í þeim anda, að þær geti allt, ef viljinn væri fyrir hendi.  - Þegar ömmustelpan mín var 4ra ára hringdi hún eittsinn og sagði full ákefðar :  Amma, það er sko alveg rétt hjá þér "æfingin skapar meistarann".  Ha, hváði ég!  - "Já, ég get hangið á hárinu" svaraði telpan og gleðin leyndi sér ekki.  -  Fyrir utan gluggann hjá henni var róluvöllur, og þar var hún búin að fylgjast með stórum stúlkum,  gera æfingar á slá,  þar sem þær, kræktu fótunum um slána og héngu með höfuðið niður, og hárið flaxaðist til og frá, og það fannst lítlli ömmustelpu algjört æði.

- Og hana dreymdi um, að geta gert þetta líka.  En amma hafði sagt við hana, eittsinn, þegar hún var að hjálpa henni, og lyfta ömmustelpu upp á slána, svo hún gæti látið draum sinn rætast,  að ef hún væri dugleg að æfa sig, mundi hún geta gert eins og stóru stelpurnar.  -  En til þess yrði hún að þjálfa sig og æfa.  Og það kostar þolinmæði að ná árangri - Því æfingin skapar meistarann- . -  Og viti menn, ári seinna tókst henni að "hanga á hárinu" alveg eins og stóru stelpurnar.  

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 7.4.2008 kl. 14:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband