19.2.2008 | 21:57
Íslenskukennsla í Útvarpsleikhúsi
Fyrir rúmum áratug eða svo var ég einusinni sem oftar á leiklistarhátíð , en þá reyni ég sjá eins mikið af góðum sýningum og mögulegt er, en þarna var ég á Alþjóðlegri leiklistarhátíð í Hollandi og hafði séð margar góðar leiksýningar og gott dansleikhús sem var þarna áberandi þetta árið í Amsterdam.
En sá þá auglýst í prógrammi Listahátíðarinnar afar spennandi sýningu í Den Haag, svo við ákváðum dætur mínar og ég að skella okkur til Dan Haag fara á ströndina sem er mjög skemmtileg þarna og fara svo í leikhús á eftir. Þetta var útileikhús sem sett hafði verið niður á aðaltorgi borgarinnar (spennandi), þar, á torginu semsagt, hafði verið byggt einhverskonar hús "snjóhús" og í kringum það var verið að setja upp ljós.
Við keyptum okkur miða á sýninguna og fórum svo á ströndina og svo þegar fór að bregða birtu drifum við okkur inní borg og niðrá torg. Þar var okkur áhorfendum leiðbeint inn í leikhúsið ( inn í snjóhúsið), gegnum lítið þröngt op, eins og gjarnan er á snjóhúsum, og þegar inn var komið, þá mátti sjá, að ljósið frá ljóskösturunum sem stóðu fyrir utan, lýstu í gegnum veggina , og inn í húsið, inni var allt fljótandi í vatni enda fjallaði verkið um vatn. Verur birtust allsstaðar bæði ofanum lítið gat í loftinu sem og skríðandi í gegnum smugur sem við áhorfendur sáum ekki svo glöggt. Leikararnir sem í þessu tilfelli voru líka dansarar komu í þögn og uppgötvuðu snertinguna við vatnið og þegar þau höfðu fengið kraftinn úr vatninu byrjaði ein sú kraftmesta og flottasta sýning sem ég hef séð.
Þetta var mjög eftirminnileg sýning, þar sem allt spilaði saman, og útkoman varð glæsileg , en strax í upphafi sýningar tók ég eftir ungri stúlku sem bókstaflega stal senunni með þvílíkum sviðssjarma og útgeislun að allir meðleikarar og dansarar féllu bókstaflega í skuggann af þessari "Valkyrju" sem þessi stúlka lék, stúlkan talaði bæði frönsku og flæmsku ég skildi ekki orð en skildi samt allt og yngri dóttir mín ellefu ára var sama sinnis þegar við fórum að ræða sýninguna á heimleiðinni.
Þá segir eldri dóttir mín mér að þetta sé íslensk stúlka og ég muni hitta hana á morgun. Þá kemur semsagt í ljós að stúlkan Lilja Björk Hermannsdóttir er fædd og uppalin í Luxemborg svo þessvegna hafði ég aldrei séð neitt til hennar fyrr, en það sem kom mér mest á óvart þegar ég hitti hana var, hve fallega íslensku hún talaði, og talar enn, ég varð alveg gáttuð, það örlaði ekki á hreim og málfræðin alveg pottþétt og orðaforðinn var meiri enn hjá mörgum Íslendingnum sem hafa þó búið hér alla sína ævi., og munu margir geta öfundað hana af fallegu orðfæri. Þá sagði hún mér að hún hafi reynt að koma til Íslands á hverju sumri og búið þá hjá afa sínum og ömmu, til að læra íslensku, en það sem hún gerði alltaf og hefði hjálpað henni mest og best , og væri henni sem helgistund það er að hlusta á Útvarpsleikhúsið, hér áður fékk hún kassettur af gömlum upptökum en eftir að netið kom þá eru fimmtudagskvöldin og sunnudagarnir henni heilagir því þá hlustar hún á leikritin í gegnum tölvuna hvar sem hún er í heiminum.
Og nú er þessi unga stúlka orðin leikkona og er að gera það gott út í heimi, en ég á mér þann draum og þá ósk heitasta að hún fái sem allra , allra fyrst, að leika á íslensku sviði. Mest væri samt gaman ef að hún fengi fyrst að leika í Útvarpsleikhúsinu, leikhúsi allra landsmanna (um allan heim) . Í leikhúsinu sem ól hana upp listalega séð. Þar sem Útvarpsleikhúsið hefur lagt fram sinn skerf að framtíð þessarar ungu , kraftmiklu og glæsilegu leikkonu, og jafnvel gerði það að verkum að hún ákvað að stíga þetta spor að verða leikkona.
Útvarpsleikhúsið hefur semsagt jafnvel verið öflugasta leikhúsið í útrás hér áður og er kannski enn. Er þetta ekki merkilegt ?!?!?. Jú, þetta er sko merkilegt. Þessvegna varð ég að segja ykkur frá þessu. Og ég er líka viss um að þið takið undir ósk mína um að Lilja Björk verði boðin velkomin á íslenskt svið. Kv. LG.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.